146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst að kjarna til um upplýsta ákvörðun að auka neyslu með því að fjarlægja ódýrar forvarnir og vega á móti því með því að velja dýrari aðferðir, sem sagt reyna að halda neyslunni óbreyttri, en við erum að fjarlæga ódýrari aðferðir með einhverjum aðgangshindrunum og svoleiðis og nota dýrari aðferðir sem eru forvarnir, fræðsla og meðferðarúrræði. Allt í lagi með það. Þetta er upplýst ákvörðun.

Það sem mér finnst vanta í frumvarpið eru þau lýðheilsuviðmið sem við stefnum að. Sagt er í frumvarpinu, eins og vitnað var til hérna áðan, að neysla komi til með að aukast kannski fyrst um sinn. Væri ekki gott að byrja á forvörnum áður en við förum út í að auka aðgengið? Það er tiltekið í frumvarpinu að lögin eigi ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar 2018, sem er einhver seinkun, en það tekur oft langan tíma að koma öllu svona forvarnastarfi í gang.