146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:02]
Horfa

Flm. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Þetta er réttmæt ábending, vangaveltur. Það kann að vera að meðferðarúrræði verði í einhverjum tilvikum dýrari. Það er ekki það sem skiptir máli, heldur forvarnir, fræðsla og meðferðarúrræði. Sem er ráðgjöf og aðstoð við þá sem hjálpar eru þurfi. Hún virkar best. Það virkar best til að sporna gegn óhóflegri neyslu áfengis.

Það er alveg rétt að miðað við þann tíma sem gert er ráð fyrir að líði þar til frumvarpið verður samþykkt og verður að lögum, þá er ég alveg sérstaklega tilbúinn í það að við ræðum í þessum þingsal, í meðförum þingsins, hvernig stjórnvöld geta búið í haginn fram að áramótum um þessi atriði og hrindi þeim í framkvæmd með sem bestum hætti.