146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem ég kom því ekki við hérna áðan langar mig að sækja í viskubrunn hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur þar sem hún hefur átt í þessum viðræðum áður og þekkir því málið vel. Ég sé alveg fyrir mér aðstæður þar sem frjáls sala á áfengi getur farið fram án þess að þar sé eitthvert lýðheilsuvandamál. En það þarf stöðuga vinnu, fræðslu og forvarnir til þess að viðhalda slíkri menningu þar sem tekið er tillit til hinna skaðlegu áhrifa þessa vímugjafa. Það sem ég vildi inna hv. þingmann eftir er: Hver ættu lýðheilsuviðmiðin að vera í þessu frumvarpi? Hverju hafa innlendir aðilar mælt með varðandi raunhæf viðmið í lýðheilsumálum með tilliti til áfengisneyslu, (Forseti hringir.) svo sem til að minnka hana, eða erum við með slaka í þeim málum?