146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:36]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki alveg hvar ég á að byrja. En hv. þingmanni var tíðrætt um að þetta væri forgangsmál Sjálfstæðisflokksins. Það er nú þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina verið í ríkisstjórn, því eru forgangsmál flokksins ríkisstjórnarmál, en önnur mál þingmannamál. Ég er líka sammála hv. þingmanni að við eigum að eyða einmitt meiru í að forgangsraða í grunnþjónustu og þeirra atriða sem hv. þingmaður nefnir, en í því erum við kannski ósammála að ég tel að ríkið eigi ekki að vera að einbeita sér í að reka vínbúð á meðan heldur að einbeita sér einmitt að þeirri grunnþjónustu sem hv. þingmaður nefnir.

Hræðsluáróðurinn er ótrúlega mikill. Nánast alls staðar í hinum vestræna heimi, nánast í öllum löndum sem við Íslendingar berum okkur saman við, er sala áfengis að mestu leyti frjáls, en samt halda þingmenn því fram að frjáls sala áfengis með öllum þeim kvöðum sem eru í frumvarpinu leiði bara til hruns samfélagsins eins og við þekkjum það. Ég furða mig á því að hv. þingmaður telji líka að stýring ríkisins sé besta úrræðið. Væri það þá líka besta úrræðið varðandi tóbak og jafnvel sykur? Telur (Forseti hringir.) hv. þingmaður ekki líkt og við flutningsmenn frumvarpsins að forvarnir, (Forseti hringir.) fræðsla og meðferðarúrræði sé einmitt best til að sporna við óhóflegri áfengisneyslu?