146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki farið með neinn hræðsluáróður hér. Ég furða mig á því að hv. þingmaður skuli kalla ræðu mína og skoðun mína og rök sem ég færi hér fram gegn frumvarpinu hræðsluáróður. Áfengi er ekki venjuleg vara. Áfengi er vímuefni. Það hefur skaðleg áhrif á heilsu fólks, en það hefur líka skaðleg samfélagsleg áhrif. Það hefur skaðleg áhrif á heimili fólks. Skaðleg ofneysla foreldra hefur skaðleg áhrif á líðan barna. Það hefur svo margar aukaverkanir. Þó að ég fái mér sykur þá skaðar það mig, en ef ég drekk of mikið brennivín þá skaðar það ekki bara mig, heldur líka börnin mín og fjölskyldu mína og ber síðan kostnað með sér inn í heilbrigðiskerfið, löggæsluna (Forseti hringir.) og víðar. Við erum ekki að tala um (Forseti hringir.) brjóstsykur. Við erum að tala um áfengi.