146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:41]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Forseti. Það er best að segja það strax að ég styð það að einkaleyfi ríkisins til sölu á áfengi verði afnumið. Ef frumvarpið fjallaði bara um það þá mundi ég líka ljá því stuðning minn. En frumvarpið fjallar ekki bara um það. Það felur í sér stóraukið aðgengi að áfengi og þar stendur hnífurinn í kúnni. Það er nefnilega beinlínis rangt það sem segir í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Í meginatriðum felur frumvarpið í sér litla breytingu á lagaumhverfi áfengis- og tóbakssölu miðað við það markmið að gera smásölu með áfengi frjálsa.“

Þetta er ekki rétt. Ef það væri rétt þá fjallaði frumvarpið bara um það að selja áfengisverslanir á vegum ríkisins, þá héldu sér allar aðrar reglur, takmarkanir og viðmiðanir en þær. Þá væri ekkert gert annað en að selja þessar verslanir og koma þeim í einkaeigu. Það er ekki. Frumvarpið fjallar um ýmislegt annað. Það fjallar um það að afgreiðslutími verði stórlengdur. Það megi selja áfengi til miðnættis frá því klukkan níu á morgnana í öllum matvöruverslunum sem uppfylla þau skilyrði. Það fjallar um það að heimila auglýsingar á áfengi. Og allt þetta sem snýr að frumvarpinu annað en einkasala ríkisins veldur því að ég get ekki stutt frumvarpið eins og það stendur.

Það er vafasöm staðhæfing, sem aðeins hefur verið komið inn á, í þessari greinargerð, með leyfi forseta:

„Ekki hefur verið sýnt fram á að það sé varanlegt orsakasamhengi á milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu.“

Ég tók mig til í gærkvöldi og fletti upp þeim rannsóknum sem sumir hafa vísað til hér og með fylgdi yfirlit frá landlækni með umsögn hans um sambærilegt frumvarp í fyrra. Bara yfirlitið var, held ég, 14 eða 15 síður og vísaði til margra tuga vísindarannsókna. Ég fletti upp á niðurstöðum margra þeirra. Þær voru nánast allar samhljóða, þær sem fjölluðu um þetta atriði, um að beint orsakasamhengi, línulegt samhengi, væri á milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu. Það sem meira er, neyslan jókst í öllum hópum áfengisneytenda, líka þeirra sem fóru hóflega með áfengi, en mest jókst neyslan hjá þeim sem viðkvæmastir voru fyrir, þ.e. hjá ungu fólki og áfengissjúklingum.

Ég renndi í gegnum umsagnir þær sem höfðu verið sendar við sambærilegt frumvarp í fyrra, og allir fagaðilar sem fjölluðu um þetta mál — allir — lögðust gegn því að þetta yrði gert með þessum hætti; Barnaheill, Barnaverndarstofa, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagsráðgjafafélag Íslands, landlæknir, Samráðshópur um forvarnir, umboðsmaður barna, Félag lýðheilsufræðinga, Læknafélag Íslands og þar fram eftir götunum. Ég held að það sé engin tilviljun að þannig liggur þetta fyrir.

Það má líka vel hugsa sér afnám þessarar ríkiseinokunar og það afnám þarf ekki að fela í sér að áfengi fari í matvöruverslanir með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það mætti meira að segja líka gera sér í hugarlund að það að færa vín yfir í matvöruverslanir þyrfti ekki að fela í sér stóraukið aðgengi ef menn hefðu takmarkanirnar að öðru leyti á hreinu; afgreiðslutímann, afmörkunina í verslunum og þar fram eftir götunum.

Ég held að ekki sé hægt að deila um það að frumvarpið eins og það stendur felur í sér þetta stóraukna aðgengi að áfengi. Ég ætla svo sem ekki að orðlengja þetta hér í 1. umr. Eyjólfur hressist kannski. Frumvarpið batnar kannski í meðförum nefndar og kemur í öðru formi hingað til baka. En eins og það stendur þá get ég ekki stutt það. Ég vil leyfa mér að halda því fram að í þeirri afstöðu minni felist fremur umhyggja en forræðishyggja.