146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:47]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska hv. þm. Páli Magnússyni til hamingju með jómfrúrræðu hans og biðst afsökunar á að brjóta þá óskrifuðu reglu að koma upp í andsvör til hv. þingmanns sem flytur slíka ræðu.

Eins og þingmaðurinn sennilega veit styð ég málið, eins og hann segir af þessum prinsippástæðum, en er engu að síður opinn fyrir því að málamiðlanir megi gera með útfærsluna. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður geti hugsað sér að skipta um skoðun þegar fram líður. Nú eru ákveðnar takmarkanir, áfengi þarf að vera í sérstökum rýmum samkvæmt frumvarpinu og ákveðin takmörk eru á opnunartímum. Sér hv. þingmaður t.d. fyrir sér að það þurfi bara að vera styttri tími? Ég er líka að benda almennt á að, eins og komið hefur verið hér inn á og ég ætla ekki að rífast um, þá er mjög líklegt að frjáls sala áfengis muni auka aðgengi hvernig sem það er útfært.

Þess vegna skýtur það svolítið skökku við í mínum huga að segjast vera fylgjandi því í prinsippinu að leyfa frjálsa sölu áfengis en geta ekki stutt eitthvað sem gæti aukið aðgengi. Ég held að það muni auka aðgengi. Ég held að það muni auka neyslu. Ég er fylgjandi því þrátt fyrir það. En ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður rökstyður fyrir mér þessa afstöðu.

Ég er reyndar, svo því sé haldið til haga, efins um að fylgnin sé línuleg. Við vitum að þótt áfengi sé ekki venjuleg neysluvara er hún fyrir mörgum neysluvara, þ.e. sumir fá sér vín með matnum, bjórneysla er hófleg o.s.frv., sem hefur kannski ekki skaðleg áhrif. Telur hv. þingmaður raunverulega að áhrifin séu línuleg? Að þeim sem þjást t.d. af áfengissýki eða alkóhólisma muni fjölga við þetta, eða að viðkomandi aðilar muni frekar neyta áfengis við það að geta keypt það á sunnudögum? Það er þetta tvennt, samræmi þess að vera fylgjandi frjálsri sölu en á móti auknu aðgengi og hvort fylgni sé línuleg. (Forseti hringir.) En hitt líka, hvort þingmaðurinn geti hugsað sér að fara til samstarfs um breytingar á útfærslu (Forseti hringir.) frumvarpsins og mögulega styðja það.