146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:54]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir hamingjuóskir með jómfrúrræðuna og afsökunarbeiðni, að brjóta hina óskoruðu reglu. En ræðan var góð og málið er mikilvægt og ágætt að eiga orðastað um þessi mál.

Ég fagna þeim sjónarmiðum sem koma fram í máli hv. þm. Páls Magnússonar, svona flestum. Ég fagna afstöðu hans til frumvarpsins. Ég er sammála honum í því sem hann kom ágætlega inn á í máli sínu, þ.e. varðandi þá villu — langar mig að segja en tek þó ábyrgð á því orðalagi sjálfur, er ekki að koma því yfir á hv. þingmann — sem er í frumvarpinu um að rannsóknir sýni enga fylgni þarna á milli, það sé ekki hægt að sýna neitt fram á það.

Hv. þm. Teitur Björn Einarsson kom inn á það í máli sínu, og það má einnig finna í frumvarpinu, að áfengisauglýsingar hefðu engar afleiðingar aðrar en að færa til neyslu á milli tegunda. Nú er hv. þm. Páll Magnússon sjóaður í ýmsu þegar kemur að markaðs- og auglýsingamálum. Ég verð að játa að fyrir mér eru þetta töluvert ný tíðindi og vegur að einhverju leyti að grundvallarstoðum kapítalismans og markaðarins um framboð og eftirspurn, um auglýsingar, um vitund, um aðgengi og allt það.

Hvað getur hv. þm. Páll Magnússon sagt mér um þetta, þ.e. að áfengisauglýsingar hafi engar aðrar afleiðingar í för með sér en að kaupandinn kaupi þá eina bjórtegund frekar en aðra þann daginn?