146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:22]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna; hún hefur það fram yfir mig að hafa tekið þátt í umræðum um þetta frumvarp áður, ekki rétt? En mig langar aðeins að fá að ræða þau atriði sem hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir kom inn á, þ.e. þessar rannsóknir. Nú hlýddum við á mál hv. flutningsmanns frumvarpsins sem gerði afskaplega lítið úr öllum rannsóknum. Meira að segja í greinargerð með frumvarpinu sjálfu er látið eins og ekki sé á nokkurn hátt hægt að sýna fram á samhengi milli þess að auka aðgengi og áfengi og að neysla þess aukist. Í því sambandi hafa margir látið eins og Ísland sé eitthvert töfraland, að um það gildi ekki sömu reglur og önnur lönd. Við séum svo sérstök að þær rannsóknir sem gerðar hafi verið í nágrannalöndum okkar og jafnvel víðar eigi engan veginn við um okkur. Væntanlega vegna þess að við erum bara svo frábær, ég átta mig ekki alveg á því hver skýringin er.

Mig langaði kannski að spyrja hv. þingmann aðeins út í þetta. Hún hefur skoðað þessar rannsóknir nokkuð náið. Er ekki nokkuð einboðið að það sem á við í þeim löndum sem við berum okkur saman við, og þar sem þessar rannsóknir hafa verið gerðar, eigi við um okkur hér? Auðvitað erum við ekkert öðruvísi en aðrar þjóðir.