146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:27]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur svarið og umræðuna. Aðeins á sömu nótum: Hv. þingmaður kom aðeins inn á það sem ég og fleiri gerðum að umtalsefni hér áðan, þ.e. þetta tveggja ára tímabil sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég reyndi að þýfga flutningsmann frumvarpsins, hv. þm. Teit Björn Einarsson, um svör við þessu en lítið varð um þau.

Hér er gert ráð fyrir aukinni neyslu sem frumvarpið muni hafa í för með sér — það er kannski óvenjumikil hreinskilni hjá flutningsmönnum frumvarpsins að viðurkenna það þó — en að forvarnaverkefni í tvö ár muni jafna það allt saman út. Nú veit ég að hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir er betur að sér í ýmsu er lýtur að forvörnum og velferðarmálum en ég. Þekkir hún til þess að forvarnaverkefni sem eigi að breyta neyslumynstri þjóðar sé tveggja ára verkefni?

Og aðeins, af því að bæði hv. flutningsmaður og fleiri hv. fylgjendur þessa frumvarps hafa talað um aukna fjármuni í forvarnir, fræðslu og meðferðarúrræði og ef ég man það rétt verði sá hluti sem fer í það af áfengisgjaldinu aukinn úr 1% í 5%: Er hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir sammála því að það er eitthvað sem við gætum gert algerlega óháð því hver fyrirkomulagið sé varðandi söluna og hvort það sé allt gefið frjálst og leyft að auglýsa eins og hverja aðra neysluvöru? Eigum við ekki bara að taka höndum saman með flutningsmönnum (Forseti hringir.) frumvarpsins um að það verði gert en fella svo þær aðrar tillögur sem eru í frumvarpinu?