146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni erindi hennar. Ég tók eftir því að hún staldraði við sömu setningu í greinargerðinni og ég sem mætti, ef við lítum svo á að við séum hér í fermingarveislu hv. þm. Teits Björns Einarssonar, 1. flutningsmanns, segja að sé eiginlega trúarjátningin í þessu frumvarpi: Að það sé ekki hlutverk ríkisins að sinna smásölu. Af hverju er það ekki hlutverk ríkisins? Jú, því að þeir sem skrifa þessa setningu trúa því að arðbærum rekstri í höndum ríkisins skuli vísa til einkaaðila til að þeir geti haft af honum hagnað.

Það má margt segja um ríkisrekstur á áfengissölu en hún er á vissan hátt ekki í hefðbundnu hagnaðarskyni. Álagningin er hófleg og ríkið sinnir neyslustýringu miklu frekar í gegnum gjöld á vöruna, nokkuð sem myndi væntanlega snúast við ef salan færðist í hendur einkaaðila. Nú situr hv. þingmaður í velferðarnefnd og þekkir þá væntanlega ágætlega þau ramakvein sem eru rekin upp í hvert sinn sem við förum að tala um gjöld sem neyslustýringu, eins og t.d. sykurskatt. Það gengur fjandanum verr að koma sykurskatti á og halda honum gangandi lengur en eins og eitt misseri. Megum við ekki búast við því að verði þetta frumvarp að lögum og einkaaðilar fari að hafa hagsmuni af því að kýla niður opinber gjöld á áfengi að hér verði röð út á götu hvert ár til að ná eyrum velferðarnefndar og fjárlaganefndar til þess að lækka áfengisgjald og aðrar álögur á áfengi þannig að neyslustýringarhlutverk ríkisins verði í raun tekið úr sambandi?