146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:58]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir fyrir svar hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur. Mig langar líka að spyrja, af því að því hefur verið velt upp við mig, hvað verður t.d. með stöðu barna og ungmenna sem vinna í verslunum í dag? Núna sér maður það bara þegar maður kíkir út í Bónus eða Krónuna að yfirleitt eru það grunnskólanemendur, oftast nær, alla vega í mínu sveitarfélagi, sem starfa þar á kössum. Hefur hún ekki áhyggjur af því þrátt fyrir greinargerð um annað í frumvarpinu, að það verði í raun og veru aukið aðgengi að áfengi, og hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér? Maður veltir fyrir sér atvinnuöryggi þeirra barna sem eru að vinna sér inn aukapening með skóla. Eða ætlar verslunin sér að leysa þetta með því hafa einn verslunarstjóra sem er 20 plús, sem hleypur á milli kassanna og rennir flöskunum í gegn? Maður sér ekki hvernig það ætti að ganga upp og takmarka um leið aðgengið.