146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að mér finnst gott að heyra að hv. þingmanni sé ÁTVR — sagðirðu kært? (BN: Já, mjög kært, mér kært.)Mér finnst það ágætt, mér finnst gaman að finna að ég og hv. þingmaður, sem erum svo ósammála á gríðarlega mörgum sviðum, eigum samt mjög margt sameiginlegt, þar á meðal þetta. Þess vegna skil ég ekki alveg hvernig er þá hægt að vera sammála þessu frumvarpi og vilja leggja niður það sem manni er kært. En það var ekki það sem ég var spurð um.

Ég held að ástæða þess hversu vel hefur gengið hér á Íslandi að draga úr ungmennadrykkju sé að þrátt fyrir að aðgengi (Forseti hringir.) að áfengi hafi aukist er það samt innan mjög skýrs ramma. (Forseti hringir.) Það er vegna þess að það er í sérverslunum en er ekki alltaf fyrir (Forseti hringir.) augunum á ungmennum í daglegu lífi þeirra.