146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það gerist hér aftur og aftur, finnst mér, og því meira eftir því sem ég kynnist hv. þingmanni betur, að við komumst að sömu niðurstöðu, en eftir einhverjum gjörólíkum leiðum. Það á að hluta til við um þetta mál. Mér finnst það áhugavert sem hv. þingmaður sagði og notaði það sem rök að ef þetta mál brynni ekki á þjóðinni væri honum það ekkert kappsmál að samþykkja það. Ég veit ekki til þess að þetta mál sé mikið forgangsmál hjá þjóðinni. Ég held að það séu allt önnur mál. Ég held að það séu heilbrigðismál, menntamál og samgöngumál sem brenna á þjóðinni en ekki þetta mál.

Varðandi aðgengisrökin hef ég einmitt áhyggjur af því, og ég kom aðeins inn á það í ræðu minni, að ef ríkið gefur eftir smásöluna á áfengi, sem gæti verið það sem sumir hv. þingmenn eru til í að sætta sig við ef annað fer út úr þessu frumvarpi, (Forseti hringir.) séum við búin að lækka girðinguna það mikið að þá verði gengið á lagið og krafist enn meiri tilslakana.