146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:13]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessi viðbrögð hv. þingmanns og get borið virðingu fyrir afstöðu hennar en er virðingarfyllst ósammála. Ég held að það sé í raun ógjörningur að ætla að reyna að stemma stigu við öllum þeim áfengisauglýsingum sem eru nú þegar í öllu umhverfi okkar. Ég held að það sé bara ekki hægt. Því sé mun skynsamlegra að bregðast við og mæta þeim veruleika með einhverjum hætti, fyrir utan alls konar aðra vinkla þess máls varðandi t.d. ósanngjarnan aðstöðumun, varðandi samkeppni milli innlendra aðila, til að mynda lítil brugghús sem stuðla að betri vínmenningu miðað við t.d. aðra.

Ég vil rétt í lokin tala um niðurstöður starfshóps árið 2010 sem fjármálaráðherra hafði skipað, sem var þá hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, en þar segir, með leyfi forseta:

„Lagt til að heimila skuli með miklum takmörkunum auglýsingar á áfengi enda sé óraunhæft að ætla að koma algjörlega í veg fyrir þær. Slíkt er í samræmi við reglur flestra Norðurlandaþjóðanna og líklegt til að gera eftirlit skilvirkara og eyða réttaróvissu.“