146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:26]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni ræðuna og vona að ég standi undir ósk hans um málefnalegar samræður. Ég get í það minnsta sagt honum að ég mun ræða efni frumvarpsins. Ég hef lesið það og hér eru glósurnar mínar upp úr því.

Það er ýmislegt sem væri gaman að eiga orðastað við þingmanninn um og ég hafði svo sem hugsað mér að gera það, en það riðlaðist aðeins hjá mér. Ég sperrti eyrun þegar ég heyrði hv. þingmann fullyrða að aukið aðgengi auki neyslu. Ég skrifaði það eftir honum hér úr ræðustól og náði ekki að skrifa hraðar, en ég heyrði ekki betur en að hann segði í kjölfarið að hann hefði alltaf haldið því fram. Þá langar mig að beina athygli hv. þingmanns að stað þar sem hann heldur því ekki fram, þar sem hann heldur akkúrat því andstæða fram, sem er í greinargerð frumvarpsins sem hv. þingmaður vill ræða. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ekki hefur verið sýnt fram á það að varanlegt orsakasamhengi sé milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu.“

Hvernig fer þetta saman við fullyrðingar þingmanns um að aukið aðgengi auki neyslu og hann hafi alltaf haldið því fram? Eða er hann þeirrar skoðunar, eins og fram kemur í greinargerðinni, að þetta sé eitthvert tveggja ára tímabil? Ég veit ekki enn og hef ekki enn fengið skýringu á því af hverju allt á að breytast á þessum tveimur árum, eins og við ræddum í ræðustól fyrr í dag, en ef hv. þingmaður hefur ekki fylgst með get ég komið betur inn á það í seinna andsvari.