146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:29]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningarnar og gott að þetta fái að koma fram. Ég hef haldið því fram að aukið aðgengi myndi auki neyslu ef við lækkuðum áfengiskaupaaldurinn, hefðum algerlega frjálsan opnunartíma, hefðum algerlega frjálst hvernig verslanir settu vöru sína fram og seldu hana, ef við leyfðum söluna á víðavangi og ýmislegt annað. Ef við gerum þetta alveg frjálst væri aðgengi klárlega aukið, ef allir þessir þættir væru til staðar. En eins og fjallað er um í frumvarpinu aukum við mögulega aðgengi ef útsölustaðir áfengis verða fleiri. Það er það sem frumvarpið gengur út á, að útsölustöðunum geti mögulega fjölgað, þótt ekkert sé öruggt í því, en það er mjög líklegt. Það er einmitt það sem Vínbúðin hefur verið að gera. Það er einmitt það sem einkaaðilar hafa verið að gera með því að sækja um vínveitingaleyfi á hverjum einasta degi, að ég tel, hér á landi. Einkaaðilum sem selja áfengi dagsdaglega í gegnum vínveitingaleyfi sitt hefur fjölgað um hátt í 1.000%. Það hefur ekki aukið neysluna varanlega, eins og stendur í frumvarpinu. Við sáum þetta þegar bjórinn var leyfður. Þetta eru að mörgu leyti svipaðar aðstæður. Þá var einhverju breytt sem var spennandi og þá jókst neyslan svolítið til að byrja með, en svo náði hún fljótlega jafnvægi. Það sýna rannsóknir á neyslunni eftir að bjórinn var leyfður.

Getur það mögulega gerst í þessu? Við vitum það ekki. Þess vegna væri gott að vera undirbúin undir það fyrstu tvö árin. Svo kom ég líka inn á það með fyrstu tvö árin að lýðheilsusjóður er í dag er notaður í allt lýðheilsutengt fyrir ríkissjóð þótt hann hafi upphaflega verið hugsaður sem lýðheilsusjóður fyrir forvarnir í áfengismálum. Til þess var hann stofnaður. En við viljum tryggja að fyrstu tvö árin hið minnsta verði aðaláherslan á að aukin fjármögnun sem kemur til út af áfengisfrumvarpinu verði notuð í áfengisforvarnir.