146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:47]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P):

Virðulegi forseti. „Þeir segja að ég hafi vit til að velja þá en ég hafi ekki vit til þess að hafa vit fyrir mér.“ Þetta orti karl faðir minn, Valgarður Guðjónsson, í vinsælu kvæði við lagið „Bjór“ með Fræbbblunum sem sló í gegn árið 1981 og var samið til höfuðs þágildandi bjórbanni í landinu. Hann stendur enn fast við þá söguskoðun að þetta lag hafi verið stór ástæða fyrir því að bjórbannið var að lokum afnumið og ég treysti því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon geti staðfest að hann hafi næstum því skipt um skoðun á sínum tíma þegar hann heyrði lagið í fyrsta sinn.

Og hingað erum við aftur komin til að ræða um bjórinn og um vitið sem við þurfum að hafa fyrir þeim sem okkur velja.

Í gegnum áralangt stjórnmálafræðinám og afskipti af pólitík hefur þessi setning öðru hverju komið mér í hug þar sem hún lýsir í raun grundvallartogstreitu stjórnmálanna á milli lýðræðislegra hagsmuna heildarinnar og náttúrlegra einstaklingsréttinda. Fyrirgefið mér ef ég hljóma of heimspekilega, en það er ákveðin siðferðisleg frumforsenda okkar daga að allir menn og konur fæðast með jöfn réttindi og að enginn sé öðrum rétthærri af náttúrunnar hendi.

Við fyrstu sýn felur það í sér að enginn hefur siðferðislegan rétt til að beita annan valdi. Hins vegar höfum við óskrifaðan samfélagssáttmála um lýðræðislegt ríkisvald ofan á þetta sem hefur lögmæta einokun á valdbeitingu í ákveðna þágu, þ.e. að með því að lifa og taka þátt í tilteknu samfélagi tökum við þátt í þeim kerfum og reglum sem það samfélag setur sér um sameiginleg málefni, svo lengi sem þau eru lýðræðislega og lögmætt sett.

Í því samhengi setjum við okkur ákveðnar reglur um sameiginlegan markað, landvarnir og löggæslu, velferðarkerfi, vegakerfi og aðra innviði og sömuleiðis höfum við siðferðislega skyldu til að aðstoða fólk í neyð, tryggja öllum lágmarksframfærslu, jafnari tækifæri o.s.frv. Lýðræðislega krafan, sem oft er virt að vettugi hér á þingi, er síðan að við höfum öll siðferðislega jafnan rétt til að móta þessar reglur, hvort sem það eru kosningar á næsta leiti eða ekki. Ég veit að það hljómar kannski ekki eins og það hafi mjög mikið með frjálsa sölu áfengis að gera, en spurningin sem við verðum að spyrja okkur í þessu samhengi er: Er það hluti af þessu lögmæta hlutverki stjórnvalda að hafa vit fyrir fólki, þ.e. að beita valdi sínu til þess að ekki bara hjálpa fólki eða setja og framfylgja reglum um okkar sameiginlegu kerfi heldur til þess að hafa stjórn á þeirra eigin lífi, líkama og neyslu?

Ég veit vel að nú eru margir að hugsa að ríkið banni fólki ekki að drekka áfengi. Það er alveg rétt, en við erum að banna fólki að selja áfengi og kaupa áfengi af öðrum en ríkinu á öðrum tímum og stöðum en ríkið kýs að selja það. Það er kannski ekki mjög alvarlegt frelsisbrot í sjálfu sér en það er engu að síður óeðlilegt að ríkið standi í smásöluverslun með löglega vöru. Það felur í sér alls konar óhagræði fyrir mjög marga og það felur hugsanlega í sér að ríkið sé að niðurgreiða áfengi með úrvali, opnunarstöðum og verðlagningu sem eftirspurn annar ekki. Ég velti fyrir mér hvort sú niðurgreiðsla á áfengi sé eitthvað sem andstæðingar þessa frumvarps telja eðlilegt.

Af þessum sökum er ég ósammála þeim sem eru á móti frumvarpinu á þeim forsendum að það gæti mögulega skert aðgengi, úrval eða hækkað verðlag á áfengi. Það gæti gerst, en ef svo er vil ég að það ráðist af eftirspurn og samkeppni, ekki því að ríkið sé að niðurgreiða áfengi sem ekki er eftirspurn eftir.

Sömuleiðis er ég ósammála þeim sem telja að rekstur smásöluvöru sé almennt betur kominn í höndum ríkisins en einkaaðila vegna fákeppni á Íslandi. Vissulega er fákeppni alvarlegt vandamál á Íslandi, en lausnin við því er að stuðla að aukinni samkeppni og eftirliti, ekki einokun. Það er t.d. ástæðan fyrir því að fákeppni á matvörumarkaði hefur ekki enn fengið okkur til að koma á ríkiseinokun um sölu á matvöru, nema ef vera skyldi mjólk, og ég vona svo sannarlega að slíkri einokun verði ekki komið á.

Það sjónarmið sem algengast er að sé notað gegn málinu, og ég hef líka mesta samúð með, eru lýðheilsurökin. Þau eru sterk og þau eru skiljanleg. Áfengi er svo sannarlega vímuefni sem hefur skaðleg áhrif á fólk, a.m.k. í óhóflegum mæli, og alkóhólismi er sjúkdómur sem hefur eyðilagt líf allt of margra. Það er samfélagslegt og persónulegt vandamál sem ég geri á engan hátt lítið úr.

Spurningin er hvort við viljum nálgast vandamálið með því að upplýsa fólk og aðstoða þá sem lenda í valda eða með því að reyna að stýra neyslu fólks á löglegum vörum með því að banna öðrum en ríkinu að selja þær. Ég tel það ranga leið. Ég vil frekar, eins og lagt er til í þessi frumvarpi, styðja miklu betur við þá sem lenda í vanda með áfengisneyslu, og upplýsa fólk, þá sérstaklega ungt fólk, mun betur um eðli og afleiðingar hennar með öflugum forvörnum. Þess vegna leggjum við til í frumvarpinu að hlutfall áfengisgjalds sem rennur til forvarna og meðferðarstarfs fimmfaldist, hækki um mörg hundruð milljónir, að mér skilst.

Þar komum við aftur að því hvað er siðferðislega rétt að nota ríkisvald í. Einokun á valdbeitingu er hlutverk sem við sem þingmenn eigum ekki að taka sem sjálfgefnum hlut. Það krefst réttlætingar á borð við þær sem ég kom inn á áðan.

Sú réttlæting að ef við beitum ekki þessu valdi til að stýra neyslu einstaklinga gætu þeir kosið að neyta efna sem hafa skaðleg áhrif á þá sjálfa eða þær sjálfar er fyrir mér ótæk réttlæting. Ríkið hefur fullan rétt á því að upplýsa og aðstoða fólk varðandi einkalíf þess en við höfum ekki rétt á því að stýra einkalífi þess með valdboði. Það er fyrir mér kjarni málsins.

Virðulegi forseti. Ríkiseinokun á áfengi er svo sannarlega langt frá því að vera alvarlegasti glæpur sem íslensk stjórnvöld fremja í dag eða hafa framið. Það er ekki helsta forgangsmál mitt eða annarra flutningsmanna frekar en flest þau þingmál sem eru til umfjöllunar á þinginu þessa dagana. Ég greiddi t.d. atkvæði með því fyrr í dag að þingið myndi fjalla um frumvarp um kjararáð á undan þessu máli, en margir af háværustu mótmælendum greiddu atkvæði gegn því, vildu alls ekki að við töluðum um mál sem varðar kjaraviðræður 70% launafólks áður en við tækjum þetta mál fyrir. Ég veit t.d. ekki betur en að hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir hafi greitt atkvæði gegn því en sé búin að verja hér mestöllum deginum í að tala um áfengisfrumvarpið. Við skulum velta aðeins fyrir okkur þeirri forgangsröðun.

Við Píratar tökum hins vegar afstöðu til mála út frá sannfæringu okkar og grunnstefnu alveg óháð málflytjendum og óháð því hvort önnur mál kunni að vera mikilvægari. Píratar hafa frá upphafi verið frjálslyndur flokkur sterkra borgararéttinda og sjálfsákvörðunarréttar einstaklinga um eigið líf. Í ljósi þessarar grunnstefnu okkar Pírata er ég svo sannarlega fylgjandi því að snúa við þeirri gamaldags forræðishyggju sem ríkiseinokun á áfengi er. Við höfum ekki siðferðislegan rétt á því að beita völdum okkar til að ráðskast með einkalíf fólks. Við eigum að upplýsa og aðstoða, ekki troða siðferðisvitund okkar og neysluvali upp á aðra í gegnum stöðu okkar sem þingmenn. Við eigum að aðstoða fólk, ekki hafa vit fyrir því.