146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:59]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég geri mér fulla grein fyrir því að verkefni framhaldsskólakennara eru og hafa alltaf verið ærin og munu áfram verða það. Eitt af þessum verkefnum hefur svo sannarlega verið að stuðla að forvarnastarfsemi og ábyrgri hegðun nemenda. Nú hef ég ekki þá reynslu sem hv. þm. Einar Brynjólfsson hefur en ég hef reynslu af því að vera framhaldsskólanemi og geri mér þar af leiðandi fulla grein fyrir því að framhaldsskólanemar sem vilja drekka áfengi komast mjög auðveldlega í það, óháð því hvort það er selt í ríkinu eða í Bónus. Það að aðgengi hafi aukist á sama tíma og neyslan hefur dregist saman finnst mér bera vott um að það sé ekki mikilvægasta málið.

Varðandi æskulýðsmál þá er vissulega mikilvægt að efla forvarnir varðandi áfengis- og vímuefnaneyslu. En ég sé ekki hvernig það getur verið málefni æskulýðs að fullorðnu fólki sé bannað að drekka áfengi. En jú, ég hlakka til að eiga í umræðum um æskulýðsmál á morgun. Þar munum við sérstaklega tala um samfélagsþátttöku ungs fólks og að styðja við starf þeirra og sjálfsákvörðunarrétt, sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt.