146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:02]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Varðandi tveggja ára markmiðið er það ákveðið lágmarksviðmið. Það er ekkert því til fyrirstöðu að það hlutfall yrði áfram nýtt í sömu málaflokka eftir tvö ár. Ég myndi styðja það. Ég verð að segja að ég er algerlega opinn fyrir því persónulega að það tímabil yrði lengt í frumvarpinu. Það er ekkert grundvallaratriði fyrir mér, þessi tvö eða þrjú ár eða eitthvað slíkt. Mér skilst að það sé bara hugsað sem ákveðið tilraunatímabil.

Ég myndi styðja frumvarp hv. þingmanns um þessa hækkun óháð frumvarpinu sem hér um ræðir. Ég hafði einmitt heyrt af því frumvarpi og líst vel á það.

Og auðvitað er þetta hugsað sem ákveðin mótvægisaðgerð. Eins og ég hef sagt áður efast ég ekki um að áfengisneysla almennt muni aukast á Íslandi. Ég hef ákveðnar efasemdir um að alkóhólismi muni aukast eða þá óhófleg neysla, en mér finnst alveg þess virði, sérstaklega þegar við ræðum umdeilda breytingu, að koma til móts við þessar mjög svo eðlilegu og skiljanlegu áhyggjur með því að auka framlagið. Eins og ég segi myndi ég vera fylgjandi því hvort eð er. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu.