146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Viktori Orra Valgarðssyni kærlega fyrir ræðuna. Ég fagna því sérstaklega að hann skuli vitna í aðra af tveimur bestu hljómsveitum Íslandssögunnar. Við sem bjuggum í Kópavogi á eftirpönksárunum fögnum því sérstaklega. (Gripið fram í.) Hvað varðar efni frumvarpsins — Er ég ekki í andsvari?

(Forseti (UBK): Nei, þingmaðurinn hefur fengið orðið í ræðu.)

Nú, ég biðst forláts. Ég var búinn að biðja um andsvar. Ég hélt að ég væri kominn í andsvar en þá skipti ég þegar í stað um takt. En ég var búinn að biðja um — (VOV: Má hann ekki fara í andsvar við mig?)

(Forseti (UBK): M?iðað við upplýsingar sem forseti er með voru þrír hv. þingmenn búnir að óska eftir að veita andsvar.)

Það var tilkynnt, forseti, að það væru fjórir (VOV: Já.) í upphafi andsvarahrinunnar áðan.

(Forseti (UBK): Ræðutími þingmannsins hefur farið af stað. Ræðutími í andsvörum áðan var tvær mínútur í fyrri umferð og ein mínúta í þeirri síðari, þar af leiðandi er augljóst að forseta …)

Það er allt í lagi. Ég hélt að ég væri í andsvari. Ég ætla bara að fá að byrja upp á nýtt, virðulegi forseti, sem er jafn virðulegur fyrir því.

Takk kærlega fyrir þetta. Eins og ég segi biðst ég forláts á þessu. Ég stökk hér upp til að fara í andsvar. En það er bara fínt að vera kominn í ræðu. Af nógu er að taka varðandi þetta frumvarp. Ég hygg að ég þurfi ekki að eyða sérstaklega mörgum orðum í lýðheilsusjónarmiðin, í umsagnir, í þá staðreynd sem m.a.s. flutningsmenn frumvarpsins viðurkenna og þá var sérstaklega athyglisvert að heyra þann hv. þingmann sem talaði á undan mér, Viktor Orra Valgarðsson, viðurkenna blákalt að þetta muni auka neyslu. Eins og ég skildi hann er frelsið til að geta keypt hjá einkaaðilanum slíkt að það trompi þær afleiðingar.

Nægilega margir þingmenn hafa fjallað um þann þátt málsins. Áðan var sérstaklega kallað eftir því að við fjölluðum um þetta frumvarp og ég ætla að leyfa mér að gera það, fjalla um það sem frumvarp. Ég verð að segja eins og er að mér finnst eiginlega ekki standa steinn yfir steini í því. Hér rekst eiginlega hvað á annars horn. Þetta kristallast að einhverju leyti í málflutningi hv. þm. Viktors Orra Valgarðssonar sem fór hér með himinskautum, talaði um frelsi og valdbeitingu ríkisvaldsins sem hann gæti ekki stutt og að það væri ekki hlutverk stjórnvalda að hafa vit fyrir fólki. Samt gerum við það. Við neyðum fólk til að greiða í lífeyrissjóði svo það geti séð fyrir sér sómasamlega í ellinni sem það því miður gerir ekki. Við setjum hraðatakmarkanir á vegum. Ekki bara svo maður skaði ekki aðra heldur líka sjálfan sig. Við neyðum þá sem eiga bíla til að kaupa sér skyldutryggingu. Við erum kannski ekki alltaf að, en við gerum það á margvíslegan máta, höfum áhrif á ákvarðanir fólks, vit fyrir fólki eins og hv. þm. Viktor Orri Valgarðsson orðaði það. Það væri meiri vigt í þessum háfleyga frelsismálflutningi um að hafa ekki áhrif á ákvarðanir fólks ef hv. þm. Viktor Orri Valgarðsson væri ekki að leggja fram frumvarp uppfullt af reglum þar sem við höfum áhrif á ákvarðanir fólks. Af hverju mega bara tvítugir kaupa áfengi ef það er svona mikil skerðing á frelsi? Ef það er frelsisástin sem hvetur okkur áfram í þessu, af hverju má ég ekki kaupa mér bjór kl. 2 um nótt? Af hverju má ég ekki eima áfengið mitt? (Gripið fram í.) Já, hv. þingmaður verður að vera samkvæmur sjálfum sér, hann getur ekki staðið að einu frumvarpi hér sem fer í töluvert ítarlegu máli yfir hættuna á eimingu og að það verði að taka sérstaklega hart á henni en boðar svo annað frumvarp þar sem eigi að afrefsivæða eiminguna og láta eins og hún sé á einhvern hátt ekki eins og í greinargerðinni sem hv. þingmaður þó stendur hér að. Af hverju má ég ekki kaupa áfengi í ísbíl eða pylsuvagni? Af hverju er sú skerðing á pylsusvöngum Íslendingum og ferðamönnum að mega ekki fá sér bjór með pylsunni sinni? Af hverju þarf að afmarka áfengi sérstaklega, af hverju þarf að fela það ef þetta er eins og hver önnur neysluvara? Hv. þm. Viktor Orri Valgarðsson fær þó prik fyrir að segja að svo sé ekki. Hv. þingmaður sagði að þetta væri vímuefni.

Í greinargerðinni með frumvarpinu sem hv. þingmaður lagði hér fram ásamt fleirum segir hins vegar, með leyfi forseta:

„Þetta sjónarmið á við um áfengi og aðrar neyslu- og nauðsynjavörur.“

Í hugum þeirra sem leggja fram frumvarpið er áfengi ekki aðeins neysluvara heldur nauðsynjavara. Það rekst hvað á annars horn hér þegar menn tala út og suður fyrir frelsi þegar þeir takmarka frelsi, fyrir því að þetta sé neysluvara, þegar þeir leggja fram frumvarp sem er uppfullt af sérreglum um vöruna af því að hún er ekki venjuleg neysluvara. Er til of mikils mælst að biðja um að fólk sé bara pínulítið samkvæmt sjálfu sér á hinu háa Alþingi? (VOV: Ég kem á eftir.) Kæri þingmaður, Viktor Orri Valgarðsson, það eru fleiri þingmenn á Alþingi en þú og þó að ég hafi aðeins verið að tala um þig hérna þarftu ekki að svara mér í hvert skipti sem ég tek hér til máls. Svo vill til að hér eru fleiri flutningsmenn.

Ég hafði ætlað mér að fara í ræðu minni lið fyrir lið yfir þær fjölmörgu spurningar sem vöknuðu við lestur minn á þessu frumvarpi. Ég festist pínulítið í frelsisrökunum sem komu fram áðan og hafa svo sem heyrst áður. Með þeim er verið að afvegaleiða umræðuna á hátt sem er eiginlega ekki boðlegur. Það er verið að láta eins og þetta snúist um frelsið, þá háleitu hugsun. Hver getur verið á móti frelsinu? Í staðinn ættum við að fara aðeins niður á jörðina og ræða í þaula hvaða áhrif samþykkt þessa frumvarps hafi. Ég veit það ekki. Ég er ekki sérfræðingur í þessum málefnum. Ég einsetti mér áður en ég tók sæti á hinu háa Alþingi að í málum sem ég væri ekki sérfræðingur í, og trúið mér að það er yfirgnæfandi meiri hluti allra mála, ef ekki öll, ætlaði ég að hlusta á fagfólk. Ég þyrfti ekki alltaf að fara eftir því sem það segði en ég skyldi hlusta á fagfólk og ef það væri samhljómur í málflutningi alls fagfólks í ákveðnum málum skyldi ég kannski aðeins taka afstöðu til þess, ekki bara svipta því til hliðar eins og hér og láta eins og það sé bara ekkert mál. Hv. flutningsmaður Teitur Björn Einarsson afneitaði vísindunum í ræðu hérna fyrr í dag. Það er svo langt seilst í málflutningnum til að afnema einkasölu ríkisins á áfengi að hv. flutningsmaður Teitur Björn Einarsson afneitar vísindunum. Það er ekki boðlegt. Það er þyngra en tárum taki að við skulum þurfa að ræða þetta á þeim forsendum, að menn standi ekki bara og falli með því sem þeir segja í þessu frumvarpi. Þar tala þeir oftar en ekki gegn sjálfum sér. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom í pontu áðan og talaði um að það yrði að vera samræmi á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis í þessum málum. Það á samt ekki við um lýðheilsusjónarmiðin. Í frumvarpinu segir að ekki þurfi að afmarka áfengi frá öðrum vörum ef því verður illa við komið, ef um er að ræða t.d. einu verslunina í tilteknu byggðarlagi sem er með starfsemi í litlu og óhentugu rými og engri annarri verslun á sama svæði með áfengi er til að dreifa.

Um þá sem búa við þær aðstæður gilda lýðheilsusjónarmið ekki samkvæmt flutningsmönnum þessa frumvarps. Það er athyglivert að ekki skuli hafa fengist almennileg skýring — þó að ég verði að upplýsa, til að vera algjörlega sanngjarn í mínum málflutningi, að hv. flutningsmaður Teitur Björn Einarsson var byrjaður að ræða þetta við mig í hliðarsal — á þessu tveggja ára töfratímabili þar sem allt á að breytast til hins betra en breytist til hins verra við samþykkt frumvarpsins, þ.e. að áfengisneysla aukist. Það er eiginlega ekki hægt að tala í pontu eins og sumir hv. þingmenn hafa gert, þó ekki sá sem stóð í pontu á undan mér, og láta eins og þetta muni bara ekki hafa nein áhrif, að aukið aðgengi muni ekki hafa áhrif á aukna neyslu, frumvarp þar sem beinlínis segir í greinargerðinni að verði það samþykkt muni neysla áfengis aukast. Allir þeir sem standa að þessu frumvarpi segja með opin augun að áfengisneysla muni aukast. Það mun hins vegar læknast á tveimur árum af því að við ætlum að setja aukna fjármuni í forvarnasjóð. Ég veit ekki hvaða töfraformúlu fólk hefur komist að sem getur breytt áfengishegðun einhverra kynslóða á tveimur árum. Svo reynir fólk, í staðinn fyrir að tala hreint út og segja: Ég vil brennivín í búðir, mér finnst það réttlátt — og það má hv. þm. Viktor Orri Valgarðsson eiga að hann talaði dálítið á þeim nótum. Mér finnst bara réttlátt að það sé hægt að kaupa brennivín í búðum, punktur — að svara fyrir fram öllum gagnrýnisröddum.

Uppáhaldssetningin mín úr greinargerðinni er þar sem talað er um að á svæðum þar sem vínbúðir eru fáar, t.d. víða úti á landi, geti áhrifin á samkeppnisstöðuna, á matvöruverslunina sem hefur væntanlega bolmagn til að opna áfengisútsöluna (Gripið fram í.) — þetta eru áhrifin. Bætt staða verslunareigandans, með leyfi forseta, „kann jafnvel að hafa áhrif á hverfamyndun þar sem þeir sem aðhyllast bíllausan lífsstíl geta nálgast fleiri neysluvörur án þess að þurfa að eltast við smásölustaði um langan veg“.

Maður er búinn að sitja við að semja greinargerð og hugsar: Hvaða hóp þarf ég að sannfæra? Jú, umhverfissinnana sem aðhyllast bíllausan lífsstíl. Ég ætla að ná þeim með þessu.

Það er eiginlega bara fyndið að hugsa til þess að þetta frumvarp skuli vera lagt hér fram í fullri alvöru enda hefur komið í ljós að tveim hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem eru sammála efni frumvarpsins finnst frumvarpið slík hrákasmíð að þeir geta ekki einu sinni stutt það.

Af hverju skyldum við alltaf vera að ræða þessi mál, brennivín í búðir? Ég efast ekki um að mörgum þætti rosalega gott að geta keypt sér áfengi hjá kaupmanninum á horninu. Sjálfur kaupi ég ekki áfengi þannig að þetta frumvarp snertir mig alveg afskaplega lítið. En hver er ástæðan fyrir því að hér er farið alla leið? Menn mega auglýsa, vera með þetta í verslunum sínum hvar sem er og ef það hentar illa að afmarka það er það ekkert mál, þeir fá undanþágu frá því. Það er minnsta málið. Skyldu vera einhverjir hagsmunir að baki? Skyldi geta verið gróði af þessari sölu? Það sem þetta frumvarp gerir er að tryggja að sá gróði sé ekki nýttur í ríkissjóð, í forvarnaskyni, ekki látinn borga fyrir þann skaða sem sala vörunnar sannarlega veldur, heldur sé hægt að stinga í það minnsta hluta hans í vasann.

Það er óþolandi krafa sem hefur heyrst frá sumum stuðningsmönnum þessa máls að það sé á einhvern hátt verkefni þeirra sem eru ekki stuðningsmenn þess að sanna að frumvarpið hafi ekki einhver ákveðin áhrif. Þingmenn sem leggja fram svona frumvarp verða að geta staðið í pontu og sannfært þjóðina alla um að frumvarpið muni ekki hafa slæmar afleiðingar. Þeir verða að geta staðið hér og fullyrt að annaðhvort hafi frumvarpið ekki þær afleiðingar í för með sér að áfengisneysla aukist, unglingadrykkja og hvað það er, eða þeim sé bara alveg sama, það skipti þá meira máli að ríkið sé ekki í smásölurekstri, af því að þannig er það einhvers staðar úti í heimi, eða að það sé þægilegra að grípa rauðvínsflöskuna með steikinni sinni. Það er ekki okkar sem höfum vægast sagt efasemdir um þetta frumvarp að sanna slæmar afleiðingar þess. Það ætti að vera hverjum þingmanni, sérstaklega nýjum þingmönnum sem koma hingað inn, jafnvel með yfirlýsingar um að breyta stjórnmálunum, kappsmál að leggja fram frumvarp sem gerði grein fyrir öllum samfélagslegum áhrifum verði það að lögum, ekki bíða eftir því að aðrir komi með þau.

Takk fyrir og ég biðst aftur forláts, virðulegi forseti, á misskilningnum í upphafi máls míns.