146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum með forseta við þessari fyrirspurn, vegna þess að hér er um það að ræða að það er ekki bara viðvörun frá Veðurstofu Íslands, heldur hefur lögreglan ráðlagt fólki að keyra ekki milli landshluta á suðvesturhorninu. Ég vænti þess að forseti vilji að þingmenn geti verið viðstaddir umræður, það er jú það sem við gerum ráð fyrir að þessi málstofa snúist um. Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum með að forseti ætli ekki að taka tillit til þessara aðstæðna. Eins og fram hefur komið þá liggur ekki fyrir að hér séu mál á dagskrá fundarins á morgun sem bráðliggur á að koma til nefndar. Ég veit að forseti í sinni fyrri aðkomu að störfum þingsins hafði sérstakar mætur á því máli sem hér er undir, en ég vonast til þess auðvitað að það hafi ekki áhrif á afstöðu forseta til þess sem hér eru gerðar athugasemdir við.