146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:39]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef það á tilfinningunni að við hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir getum farið að anda rólega, því að þessi últrahægrisinnaða stjórn er mjög brotin í þessu máli. Hún er alls ekki samstiga. Það hefur komið fram í ræðustól og í fjölmiðlum að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru alls ekki einhuga í þessu máli. Það hefur einnig komið fram hér og annars staðar að þingmenn hinna tveggja stjórnarflokkanna eru ekki einhuga í þessu máli.

Það sem furðu sætir og kom fram áðan er að annar af tveimur þingmönnum Bjartrar framtíðar sem eru á málinu, er á sama tíma talsmaður barna og formaður velferðarnefndar. Það er eitthvað rosalega skrýtið við þetta allt saman. Þetta er ekki gott mál. Vínbúðir ríkisins veita okkur góða þjónustu. Eins og hv. þingmaður sagði rekur hagnaðarvonin menn þar ekki áfram heldur fyrst og fremst það að veita fólki góða þjónustu, gott vöruúrval og gott verð. Því vil ég ekki breyta sem neytandi áfengis í hófi.