146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:51]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög gott andsvar. Mig langaði aðeins að nefna að ég var á OECD-fundi í París í þarsíðustu viku. Eins og gengur og gerist sitja þar okkur við hlið frændur okkar, Írar. Ég sagði einum þeirra að ég hefði aðeins verið að mæla gegn áfengisfrumvarpinu í fjölmiðlum og hann fer að spyrja mig hvað ég sé að bardúsa heima. Ég segi honum frá þessu frumvarpi. Hann segir: Ég bara trúi þessu ekki vegna þess að það sem við erum að gera akkúrat núna er að reyna að minnka aðgengið að áfengi í matvöruverslunum. Við ætlum að reyna að gera áfengið minna sýnilegt og það verður sérbúð, sem sagt áfengisbúð inni í matvöruversluninni. Hann sagði: Það verður svo ofboðslega erfitt. Það eru svo sterkir hagaðilar sem koma að þessum málaflokki að það að taka þetta stóra skref sem við erum að reyna að gera er mjög vandasamt. Ef þessi mál eru í farvegi eins og þau eru hjá ykkur og Svíum skuluð þið (Forseti hringir.) alls ekki breyta um kúrs.

Þetta voru ráðleggingar frá hinum glaðbeittu frændum okkar, Írum.