146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:52]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að vita að það eru ekki bara Sjálfstæðismenn í þingsalnum sem eru glaðbeittir heldur einnig frændur okkar, Írar, sem eru líka svona glaðbeittir. Gaman að því.

Þetta er akkúrat málið eins og ég nefndi í framsöguræðu minni áðan og ég furða mig á hvers vegna við eigum að fara leið sem aðrir eru búnir að fara og hafa horfið frá eða þjóð eins og Írar sem eru að reyna að snúa til baka frá því kerfi sem þeir eru með og horfa til okkar. Eins og ég sagði áðan snýst þetta um að hafa sjálfstraust. Það er svo mikil minnimáttarkennd hjá okkur, Íslendingum, sem endurspeglast svo glögglega í þessu máli að kerfið okkar sé ekki nógu gott, það sé allt svo flott annars staðar. Eins og hv. þm. Rósa Björg Brynjólfsdóttir kom inn á áðan er, þegar betur er að gáð, kannski meiri hluti þeirra þjóða, t.d. landsvæði í Bandaríkjunum og Kanada, bara alls ekki svona brjálæðislega frjálslyndur eins og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins reyna að telja okkur trú um og við eigum að fylgja í kjölfarið (Forseti hringir.) á vegna þess að það er svo töff. Það er bara alls ekki töff. Það er miklu meira töff að vera eins og við erum og við skulum bara halda því áfram.