146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

störf þingsins.

[10:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Í störfum þingsins er það helst að kjararáðsfrumvarp Pírata er eitt af forgangsmálum okkar, er eitt af þeim þrem málum sem forseti Alþingis gefur þingflokkum í eins konar þingmálakvóta. Við skiptum öðru máli út og settum málið um kjararáð í þann forgangsflokk. Það þýðir að það verður næsta mál sem Píratar fá rætt innan þess ramma sem vanalega er á Alþingi, fyrst það var ekki samþykkt í gær að málið yrði tekið strax á dagskrá þegar Píratar fluttu dagskrártillögu þess efnis og meiri hluti þingheims hafnaði henni. Það er þá næsta skref, það er næsta leið sem við höfum til að fá málið á dagskrá.

Málið er einfalt. Það er frumvarp þess efnis að Alþingi skuli með lögum fyrirskipa kjararáði að láta laun ráðamanna fylgja launaþróun almennings. Lögin í dag segja að það eigi að gera það, lögin sem voru samþykkt um jólin og taka gildi í júní segja að það eigi að gera það. Kjararáð vanvirti það samkvæmt öllum aðilum, sama hvort það eru Samtök atvinnulífsins eða ASÍ eða ef við skoðum tölur frá fjármálaráðuneytinu.

Dómstólaleiðin er of hæg af því að á þriðjudaginn, núna rétt eftir helgi, geta kjarasamningar 70% launafólks verið í uppnámi. Þetta er tækifæri Alþingis til að stíga fram með góðu fordæmi í átt til sátta í vinnumálum. Við vonum að við fáum frumvarpið sem fyrst á dagskrá. Við munum halda áfram að tala fyrir því og ef allt fer í uppnám mun þetta frumvarp áfram lifa. Þá hafa þingmenn fram á vor, þegar verkföllin byrja, verkföll vegna uppsagna á 100 kjarasamningum, til að bregðast við og nota þetta tækifæri sem frumvarp Pírata er í átt til meiri sátta á vinnumarkaði.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna