146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða dagskrána þessa vikuna. Það hefur vakið athygli mína á jákvæðan hátt að á dagskrá hvers þingfundar eru sérstakar umræður. Það er vel, virðulegur forseti, vegna þess að það er tækifæri til að dýpka umfjöllun um mörg mikilvæg málefni sem dagskráin þessa vikuna hefur sannarlega borið vitni um. Á hinn bóginn sakna ég þess verulega að á dagskrá séu stefnumótandi mál frá hæstv. ríkisstjórn. Það er kannski hin hliðin sem er reyndin, eins og margir hafa bent á, að stjórnarsáttmáli hæstv. ríkisstjórnar er býsna opinn þegar kemur að stefnumarkmiðum og fyrirætlunum. Í stjórnarsáttmálanum er til að mynda talað um að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Ríkisstjórn sem setur heilbrigðiskerfið í forgang mætti vera mun nákvæmari í sáttmála þegar kemur að þeim þætti. Fjölmargar rannsóknir staðfesta að skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf dregur mjög úr líkum á hvers konar frávikshegðun og ungmenni sem ekki taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi eru mun líklegri t.d. til að nota vímuefni en þau sem eru virkir þátttakendur í slíku starfi. Ég mun örugglega ekki ítreka það nægilega oft að við eigum að beina sjónum okkar að þessum þætti í auknum mæli í forvarnaskyni og beinar aðgerðir og stuðningur stjórnvalda á þessu sviði stuðla að heilsuábata inn í framtíðina og minna álagi á heilbrigðiskerfið og dregur úr tíðni alvarlegra lífsstílssjúkdóma.

Ég ætla hins vegar að enda á jákvæðum nótum, virðulegi forseti, og hrósa hæstv. ríkisstjórn og sér í lagi hæstv. ráðherra ferðamála fyrir stofnun skrifstofu í ráðuneytinu með sérstakri áherslu á þá ört vaxandi atvinnugrein sem ferðaþjónustan er.


Efnisorð er vísa í ræðuna