146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að verja tíma mínum hér í að ræða málefni sem er okkur mörgum hugleikið, þ.e. ferðaþjónustuna okkar, þróun og áhrif hennar á íslenskt samfélag. Það er sannarlega mikið ánægjuefni hve vöxturinn hefur verið mikill. Það er mjög mikilvægt að við náum að búa svo um hnútana að sá vöxtur og það verkefni okkar að styrkja stoðir þessarar mikilvægu atvinnugreinar verði í sátt við íslenskt samfélag. Kannanir hafa sýnt að Íslendingar eru almennt mjög sáttir við ferðamennina en þeir hafa helst áhyggjur af því hver áhrif vaxtarins verða á almenna stoðþjónustu.

Meðalfjöldi erlendra ferðamanna hér á hverjum degi er í kringum 45 þúsund manns, 20 þúsund manns í léttustu mánuðunum og fara upp í 70 þúsund í þeim þyngstu. Þessi dreifing er afleiðing vel heppnaðrar vinnu við að dreifa ferðamönnum eftir árstíðum. Sú niðurstaða, þ.e. að við höfum náð að jafna þessu niður á árstíðir, ætti að gera einfaldara fyrir okkur að bregðast við því álagi sem fjölgunin er klárlega á grunnstoðkerfin okkar, þar með talið heilbrigðisþjónustuna.

Ég hef sent inn fyrirspurn til heilbrigðisráðherra þar sem ég spyr m.a. um fjölda erlendra ferðamanna sem leitaði eftir heilbrigðisþjónustu hér á landi á tímabilinu 2009–2016, sundurliðað eftir ári og heilbrigðisumdæmi. Samsvarandi fyrirspurn var send inn af fyrrverandi hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir tveimur árum að ég held. Viðbótin nú eru þessi tvö stóru ár. Ég spyr líka um hversu hátt hlutfall af öllum komum á heilbrigðisstofnanir voru komur erlendra ferðamanna þannig að við getum glöggvað okkur á því hversu mikið viðbótarálagið er á hverjum stað fyrir sig. Enn fremur spyr ég um fyrirkomulag greiðslu, mismunandi eftir því hvort um er að ræða ferðamenn frá Evrópska efnahagssvæðinu eða utan þess. Ég minni á að stærsti hópur erlendra ferðamanna er frá Bandaríkjunum og sá næststærsti frá Bretlandi eins og staðan er í dag.

Það er mikilvægt að við höfum sem skýrasta mynd af stöðu þessara mála (Forseti hringir.) og mögulegri framtíðarþróun til þess að geta tekið hana með í reikninginn þegar við mótum framtíðarstefnu um innviðauppbyggingu og dreifingu ferðaþjónustu á landinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna