146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[11:17]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögumanni fyrir framsöguna og tek það fram að ég er ekki með á meirihlutaálitinu. Því vil ég ræða aðeins um þau ágreiningsefni sem reifuð voru í fyrra andsvari.

Mig langar að ítreka spurninguna sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom með áðan: Ef svo fer að valnefndin og ráðherra bregðast í þessu samhengi, mun hv. þingmaður standa með okkur hér í ræðustól og mótmæla fyrirkomulagi sem ekki virðir jafnt hlutfall karla og kvenna við skipun í þennan nýja dómstól? Svo þegar kemur að efnislegu ágreiningsefni nefndarinnar varðandi þetta frumvarp er ágætt að fram komi að þrjár konur sitja í valnefndinni. Þá kynjasamsetningu þurfti að setja á með lögum. Hún varð ekki til nema með lögum.

Því spyrjum við: Ef það þurfti til í því tilfelli til að skipa einfalda valnefnd, af hverju getum við ekki sett ákvæði í lögin sem segja að huga verði að kynjasjónarmiðum þegar verið er að skipa í dómstóla? Við erum ekki bara að tala um þetta skipti, við erum líka að tala um skipanir í framtíðinni.

Það er ekkert öruggt að meiri hluti nefndar valnefndarinnar, þó að hún sé skipuð konum, velji samkvæmt jafnréttislögum. Ástæðan fyrir því að setja þurfti í lög að kynjahlutfall ætti að vera sem jafnast í valnefndinni var að það var alls ekki skýrt að jafnréttislögin giltu um skipan í þá nefnd.

Ef það var ekki skýrt þá og það þurfti að setja lög til þess að tryggja að valnefndin væri skipuð með jöfnu hlutfalli karla og kvenna, af hverju ætti það þá að vera skýrt í lögum núna að valnefndin eigi að fylgja jafnréttislögum við skipanir sínar og ráðherra í því samhengi?