146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[11:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki gefið mér hvernig ég mun bregðast við þegar hingað kemur listi, hvernig sem hann verður. Ég hlakka til að sjá þá dómara sem valdir verða af dómnefndinni og hlakka til að sjá hverju valnefndin skilar af sér. Valið í valnefndina fer fram með þeim hætti að tilnefna á bæði karla og konur. Svo hefur ráðherra aukaval og getur valið á milli þeirra inn í valnefndina. Þess vegna háttar svo að það eru þrjár konur þarna núna.

Ég held að það sé einmitt nokkuð sem við þurfum að skoða, þ.e. að ráðherrann hafi meira val milli fólks til þess að skipa m.a. dómara. Það þurfum við að skoða saman. Ég veit að ráðherrann er tilbúinn að skoða meiri breytingar á skipun dómara við dómstóla Íslands. Við sjáum þá að ráðherrann ber meiri pólitíska ábyrgð á skipan dómara og hefur meira frjálsræði og meira val til þess að velja fjölbreyttan hóp dómara sem við viljum að endurspegli sem best samfélagið sem við búum í.