146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Frú forseti. Frú forseti. Það er gaman að vera að flytja minnihlutaálit í þessu máli með forseta sem fylgdi því styrkum höndum í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta kjörtímabili ásamt þáverandi hæstv. innanríkisráðherra. Þær báðar áttuðu sig á því að til að vel verði um jafn mikilvæga grundvallarbreytingu á réttarríkinu og nýtt millidómstig er þá þurfi þverpólitíska samstöðu, það þurfi að vanda til verka og eiga þær og allir aðrir hv. þingmenn sem þá komu að verkinu mestu þakkir skildar. Í ljósi þessarar forsögu þykir mér sérstaklega miður hvernig fór með þetta litla atriði sem við mælum fyrir í minnihlutaáliti.

Ég ætla að les upp nefndarálit okkar í minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar eins og það stendur hér á þingskjali.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið voru reifuð þau sjónarmið að miklu máli skiptir að vel takist til við þá skipun Landsréttar sem stendur fyrir dyrum. Sú einstaka staða er komin upp að skipaðir verða 15 dómarar í einu og líklegt er að margir muni sitja í embætti næstu áratugina. Sérstaklega voru rædd kynjasjónarmið, en dómskerfið á Íslandi á enn langt í land með að endurspegla jafnt hlutfall kvenna og karla.

Skemmst er þess að minnast að nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum beindi á síðasta ári m.a. þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að mikilvægt væri að fjölga konum í lögreglu og í Hæstarétti til að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, svokölluðum CEDAW-samningi. CEDAW-nefndin lagði sérstaka áherslu á að gripið yrði tafarlaust til aðgerða, jafnvel sértækra aðgerða eins og kynjakvóta, til að fjölga konum hratt í dómskerfinu.

Í skýrslu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna frá 30. júní 2015 er jafnframt rík áhersla lögð á fjölbreytta skipan dómara til að tryggja sjálfstætt dómsvald, en þar á meðal telur mannréttindaráðið mikilvægt að tryggja kynjajafnvægi í dómskerfinu.

Minni hlutanum þykja sjónarmið um sértækar aðgerðir til að tryggja jafnan hlut karla og kvenna í nýjum Landsrétti ríma ágætlega við þessar ábendingar Sameinuðu þjóðanna og jafnframt þær áherslur sem birtast í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þar segir m.a.: „Jafnrétti í víðtækri merkingu er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi.“ Enn fremur segir í stefnuyfirlýsingunni: „Unnið verður að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagsins, meðal annars Alþingi og dómstólum.“

Landsréttur, þetta nýja millidómstig, er mikilvægt skref til að auka réttaröryggi borgaranna. Við þinglega meðferð, eins og ég vék að í inngangsorðum, heildarendurskoðunar dómstólalaga á 145. löggjafarþingi var lögð mikil áhersla á að vinna málið í sátt, þvert á flokka, eins og sæmir jafn mikilvægri lagasetningu um grundvallarreglur réttarríkisins. Raunin varð sú að allir viðstaddir þingmenn stóðu að baki samþykkt laga um dómstóla, nr. 50/2016, þar sem Landsréttur varð loks að veruleika.

Fyrir nefndinni voru, eins og kom raunar fram í framsögu hv. þm. Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, áberandi þau meginsjónarmið að mikilvægt væri að jafna hlut karla og kvenna í dómskerfinu, en ræddar voru ólíkar hugmyndir um hvaða aðgerðir þyrfti til að ná því markmiði. Þau sjónarmið komu fram að æskilegt væri að stíga skrefið til fulls og lögfesta hreinlega kynjakvóta um dómsvaldið, en að lágmarki að lög um jafna stöðu kvenna og karla endurspeglist skýrt í ákvæðum dómstólalaganna. Einnig var bent á að erfitt væri að koma slíkum sjónarmiðum inn í verklag dómnefndar um umsækjendur um embætti dómara sem væri í raun stjórnsýslunefnd sem hefði einungis það hlutverk að láta ráðherra í té umsögn um umsækjendur þar sem væri tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi, einn eða fleiri, væri hæfastur til að hljóta dómaraembætti. Við ákvörðun um skipun dómara hefði ráðherra hins vegar svigrúm til að bregðast t.d. við kynjasjónarmiðum þar sem líta þurfi til jafnréttislaga. Minni hlutinn áréttar í því samhengi að þar sem dómsmálaráðherra setur reglur um nánari störf dómnefndarinnar er mikilvægt að löggjafinn gefi skýr fyrirmæli, líkt og breytingartillagan leggur til, um að einnig beri að fylgja jafnréttislögum við endurskoðun reglna nefndarinnar.

Minni hlutinn telur að samhljómur hafi verið um markmiðið að jafna hlut kynjanna innan dómskerfisins meðal nefndarmanna, en er ósammála meiri hlutanum um þær leiðir sem mætti beita til að ná því markmiði. Minni hlutinn telur að sú afstaða meiri hlutans að árétta að líta þurfi til jafnréttislaga við skipun dómara í nefndaráliti sé hreinlega ekki nægjanleg. Minni hlutinn telur að þó að eðlilegt hljóti að teljast að dómsmálaráðherra starfi í samræmi við jafnréttislög sé full ástæða til að hnykkja á þeirri afstöðu í lagatextanum sjálfum. Minni hlutinn telur að nú sé sögulegt tækifæri til að ná jöfnu hlutfalli kynjanna hjá dómurum á nýju dómstigi strax frá fyrsta degi og það tækifæri er mikilvægt að verja með skýru ákvæði sem nær yfir þessa fyrstu skipun dómara.

Minni hlutinn harmar að forusta allsherjar- og menntamálanefndar hafi ekki náð að sameina þau sjónarmið sem fram komu í málinu. Þessu mótmæltu fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Pírata í nefndinni, auk áheyrnarfulltrúa Samfylkingar í nefndinni. Vegna þessarar afgreiðslu lagði minni hlutinn fram eftirfarandi bókun þegar málið var afgreitt úr nefndinni, með leyfi forseta:

„Umfjöllun um millidómstigið hefur einkennst af þverpólitískri samstöðu, enda er um mál að ræða sem varðar eina grunnstoð samfélagsins, þ.e. dómskerfið. Minni hlutinn harmar að þessi samstaða skuli nú rofin vegna þess að meiri hlutinn geti ekki sætt sig við orðalag í þágu kynjajafnréttis í lagatexta.“

Minni hlutinn ítrekar hér vonbrigði sín yfir þeim klofningi sem vinnu nefndarinnar var stefnt í við afgreiðslu þessa fyrsta máls úr nefndinni í tíð núverandi ríkisstjórnar og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að á eftir b-lið 1. mgr. 2. gr. komi nýr stafliður svohljóðandi: Á eftir 1. málslið 2. mgr. komi nýr málsliður svohljóðandi: Ráðherra skal gæta þess að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna sé fullnægt.

Undir þetta álit skrifum við fulltrúar Vinstri grænna og Pírata, sá sem hér stendur og hv. þingmenn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Einar Brynjólfsson. Auk þess er hv. þm. Guðjón S. Brjánsson áheyrnarfulltrúi í nefndinni samþykkur áliti þessu.

Eins og hefur komið fram í umræðum um þetta mál á fyrri stigum horfir auðvitað dálítið sérstaklega við að það þurfi að tiltaka það að jafnréttislög gildi í öðrum lögum. Sumum þætti það jafnvel asnalegt af því að lög sem eru í gildi og eru skýrt skilgreind innan þess lagatexta ættu svo augljóslega að gilda alls staðar, en reyndin er sú að einhverra hluta vegna þegar kemur að dómskerfinu hefur þurft að ítreka sérstaklega, taka það sérstaklega fram, að þessi lög gildi um dómstóla.

Hér langar mig að vísa til 11. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, þar sem er búið að hanna kerfi tilnefninga í valnefnd um hæfi dómara, tilnefningarkerfi sem er miklu ítarlegra en maður á að venjast. Þetta er fimm manna nefnd þar sem er sérstaklega tekið fram að tilnefningaraðilar skuli tilnefna karl og konu sem skuli vera reiðubúin að vera annaðhvort varamaður eða aðalmaður eftir því sem síðan ráðherra ákveður. Ráðherra skal, með leyfi forseta, „gæta þess við skipun í nefndina að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í ráð og nefndir sé fullnægt.“ Þetta á ekki að þurfa að taka fram.

En reyndin varð hins vegar sú að þegar átti að skipa þessa nefnd og ýmsar aðrar nefndir með aðkomu dómstóla þá gerðist það oftar en ekki að Hæstiréttur sérstaklega, æðsta dómsvaldið í landinu, fór ekki að jafnréttislögum, taldi sig vera æðri jafnréttislögum og tilnefndi karla trekk í trekk. Þess vegna sá þingið sig tilneytt á síðasta löggjafarþingi að stafa það ofan í Hæstarétt að hann skuli tilnefna karl og konu í þessa nefnd. Ef þetta heitir ekki að vera með belti og axlabönd þá veit ég ekki hvað, að við þurfum að setja jafnréttislög en síðan þurfum við að stafa það ofan í aðila að þeir eigi að fylgja þeim eingöngu vegna þess að þeir hafa trekk í trekk gerst brotlegir við jafnréttislög, hunsað þau og látið eins og þau eigi ekki við sig.

Það er vissulega miður að svona mikill flýtir sé á þessu máli. Það átti raunar að fá enn styttri afgreiðslu innan þings sem endurspeglast í því að störfin sem þessi ákvæði taka til voru auglýst fyrir tveimur vikum, umsóknarfrestur er til 28. febrúar. Á meðan þingið er að fást um ákvæði sem tengjast þessum störfum, sem tengjast nefndinni sem á að vinna úr umsóknum, þá liggur ráðuneytinu það mikið á að keyra þetta ferli í gang þó þingleg meðferð standi enn yfir að þessu er hent í auglýsingu. Svo er bara vonað að við náum að klára eða samþykkja lög áður en umsóknarfresturinn rennur út svo hægt sé að byrja að vinna úr umsóknum í samræmi við lögin svo breytt, af því að ef við samþykkjum ekki þessa lagabreytingu fyrir 28. febrúar þá hefur valnefndin um hæfi dómara ekkert lagaumboð til að gera neitt í þessu máli. Við erum að fara að veita þeim aðilum sem eiga að skila ráðherra umsögn um umsækjendurna þá heimild fyrst núna með þessari lagabreytingu.

Fyrir ríkisstjórn sem skilar málum sjaldan til þingsins miðað við þingmálaskrána eða skrá yfir mál sem komin eru þá finnst mér hún líka stundum skila þeim nokkuð seint, eins og þetta mál sýnir.

Þess vegna hljómar það nokkuð kúnstugt þegar er talað um að það hafi verið óþægilegt að þessi tillaga okkar í minni hlutanum kæmi fram svona seint og við hefðum verið að breyta dómstólalögum í einhverjum grundvallaratriðum í miklum flýti hefði nefndin samþykkt þessa tillögu okkar. Og ef ég les hana bara einu sinni til að minna á hversu sakleysisleg hún er. Hún hljóðar svo:

„Ráðherra skal gæta þess að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fullnægt.“

Þetta er tillaga okkar. Hún er t.d. samhljóða því sem stendur hérna í 11. gr. gildandi laga um dómstóla, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal gæta þess við skipun í nefndina að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í ráð og nefndir sé fullnægt.“

Þetta er árétting á því að jafnréttislög, sem hafa nú gilt í nokkur ár, gildi. Þetta er ekki grundvallarbreyting á dómstólalögum því að eins og hv. flutningsmaður álits meiri hluta nefndarinnar sagði þá gilda auðvitað jafnréttislög um þetta. En alveg eins og með Hæstarétt, sem alltaf tilnefndi karla þangað til þingið sá sig knúið til að stafa það ofan í Hæstarétt að hann ætti að tilnefna karla og konur af því að jafnréttislög væru í gildi, alveg eins og þingið sá sig knúið til að gera þetta þá teljum við í minni hluta nefndarinnar nauðsynlegt að stafa það ofan í hæstv. ráðherra að við sættum okkur ekki við að hún komi hingað með lista sem ekki uppfylli jafnréttislög. Við viljum ekki að þetta nýja millidómstig verði karlaklúbbur eins og Hæstiréttur. Við viljum auðvitað að þar verði bæði kynin við borðið eins og er orðið þróunin í Héraðsdómi.

Af hverju þarf maður belti og axlabönd? Í tilviki Hæstaréttar var það vegna þess að Hæstiréttur skipaði alltaf karla. Þá er brugðist við því.

Í þessu tilviki er það vegna þess að við stöndum frammi fyrir svo stóru og viðamiklu verkefni, svo mikilvægu skrefi, sem mun hafa áhrif um áratuga skeið. Ef við reisum Landsrétt í dag með kynjahalla þá mun sá halli vera áratugum saman af því að þarna verða dómarar skipaðir til æviloka, þangað til þeir láta af störfum sökum aldurs. Ábyrgð ráðherra er því mikil og ábyrgð þingsins sem tekur við tilnefningarlista ráðherra eftir því mikil. Þess vegna hefði ég haldið að því yrði tekið fagnandi að það kæmi skýr markmiðsgrein í lögin þar sem kæmi skýrt fram að ráðherra hefði fullan stuðning þings til að skipa konur til jafns við karla í þennan nýja Landsrétt, að ef ráðherra kæmi með slíkan lista til þingsins þá myndum við fagna. Auðvitað yrði svona grein líka til þess að minna ráðherrann á að komi hún með lista þar sem kynjahallinn er mikill til þingsins munum við aldeilis láta heyra í okkur.

Því miður er staðan svo, maður á aldrei að semja lög eins og þau miðist við einstaklinga, að þetta bráðabirgðaákvæði sem við erum að fjalla um hér, verkefninu sem er lýst í bráðabirgðaákvæðinu lýkur núna fyrir sumar. Þingið á að afgreiða lista ráðherra eftir fjóra mánuði í mesta lagi. Ég reikna með því að eftir fjóra mánuði verði hæstv. ráðherra Sigríður Á. Andersen enn dómsmálaráðherra, þótt maður megi náttúrlega alltaf vona að þessi óhræsisríkisstjórn tætist í sundur einhvern tímann er kannski óþarfa bjartsýni að ætla að það gerist fyrir sumarið. Vegna þess sem sá ráðherra hefur sagt um nákvæmlega þetta mál hef ég áhyggjur. Þá finnst mér eðlilegt að við höfum öll áhyggjur af stöðu jafnréttismála, ekki aðeins í dómskerfinu. Þetta er sami ráðherrann og talar gegn jafnlaunavottun, einu af stefnumálum ríkisstjórnarinnar, sem hér í ræðustól segist ekki telja neina þörf á að grípa inn í með sértækum aðgerðum til að rétta hlut kynjanna og telur meira að segja ekki til velfarnaðar fallið almennt, eins og hún sagði í ræðustól, með leyfi forseta, „að hugsa skipun í jafn mikilvæg embætti og dómarastörf eru með þeim hætti […] að litið sé sérstaklega til kynjasjónarmiða.“

Sumir myndu segja að þarna færi ráðherra ansi nálægt því að telja sig, eins og Hæstiréttur forðum, æðri jafnréttislögunum. Þá mætti kannski einhver sem stendur ráðherranum nær en sá sem hér stendur minna hana á þessa gullvægu setningu í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Jafnrétti í víðtækri merkingu er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi.“

Ég er sammála því. Ég held að ein af þeim leiðum sem við höfum til að ná þessu sé að tryggja að þar sem er farið með völd og ábyrgð séu karlar og konur til jafns við borðið. Núna höfum við tækifæri til að senda skýr skilaboð út í samfélagið til ráðherrans og síðan til okkar sjálfra þegar við tökum málið aftur inn eftir nokkra mánuði, að þetta nýja millidómstig verði endurspeglun á kynjahlutfallinu í samfélaginu. Þannig fáum við réttlátara dómskerfi. Þannig fáum við betri dómstól og betra samfélag.

Ég held að ég sé ekki jafn bjartsýnn og meiri hluti nefndarinnar á það að einhver árétting í nefndaráliti dugi til þessa. Ég held við þurfum skýran lagatexta, alveg eins og við þurftum skýran lagatexta til ná böndum yfir það að Hæstiréttur skipaði í nefndir og ráð eins og lög gera ráð fyrir, karl og konu.

Ég vona að það hafi bara verið tilfallandi dagsform innan nefndarinnar í gær þegar tillaga okkar í minni hlutanum um að þessi klausa kæmist í lagatexta var felld. Ég vona að fólk hafi sofið á málinu og að kollegar þeirra hér í þingsal muni við afgreiðslu þessa máls sjá að sér og ganga í lið með þeim sem telja nauðsynlegt að vera með svona áréttingu í lagatexta og styðja þar með breytingartillögu okkar í minni hlutanum. Það sem ég vona sérstaklega er að hæstv. ráðherra, hver sem verður niðurstaðan, taki mögulega það lagaákvæði sem við samþykkjum, alla vega þá umræðu sem hér er og þann skýra vilja sem ég vona að við sýnum sem flest við afgreiðslu þessa máls, til að Landsréttur verði jafnt skipaður körlum og konum. Ég vona að ráðherrann standi ekki við stóru orðin um að engin þörf sé á því að grípa inn í með einhverjum sértækum aðgerðum til að jafna hlut kynjanna í dómskerfinu. Ég vona að hún standi ekki við þau orð. Ég vona að ráðherrann sjái að sér og komi til okkar með lista umsækjenda sem sómi er að og sem geti starfað farsællega næstu áratugina í Landsrétti.