146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[11:46]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir þessa umræðu. Ég tel að þessi umræða sé liður í því að skýra það að vilji okkar er allur sá sami, við viljum að jafnrétti nái fram að ganga og vonum það innilega og að farið sé eftir jafnréttislögum.

Þetta mál er mjög einfalt í mínum huga og mjög skýrt. Mig langaði að eiga orðastað við þingmanninn um það hvort við séum ekki alveg sammála um það hversu einfalt það er. Það að jafnréttislög gildi, sem kveða á um jafna stöðu karla og kvenna, byrjar fyrst að telja þegar búið er að meta hæfi einstaklinga, hæfi umsækjenda. Sú stjórnsýslunefnd sem er að störfum núna mun fyrst og fremst fara yfir hæfið. Þegar hún er búin að skila af sér þá förum við að tala um jafnréttislögin.

Það eru allir sammála um að ráðherrann og ráðuneytið hefur, það hefur verið opinbert, ekki alltaf verið sammála Hæstarétti í störfum sínum varðandi það hvort jafnréttislögin gildi. En þá taka jafnréttislögin gildi og við skulum ætla að dómsmálaráðherra fari að lögum.

Ég spyr: Fyrst þetta er svona einfalt, hverju bætir þessi tillaga minni hlutans við? Getur hv. þingmaður útskýrt það á einfaldan hátt? Hverju bætir þetta við eins og kerfið er í dag?