146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[12:01]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen sagði hér í ræðustól þann 7. febrúar, með leyfi forseta:

„Ég myndi hallast að því að lög sem almennt gilda í landinu gildi auðvitað um öll svið samfélagsins, þar með talið dómstóla.“

Þar var hæstv. ráðherra að ræða um jafnréttislög. Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra að við hljótum að ganga út frá því að dómstólar og ráðherrar sjálfir fari að jafnréttislögum þegar kemur að skipan dómara. En við vitum að sagan er ekki endilega sú að almennt sé alltaf farið að jafnréttislögum. Því fagna ég áherslu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, að ráðherra hafi að markmiði að kynjahlutföll verði sem jöfnust í hópi skipaðra dómara og að þegar dómnefnd um hæfi umsækjenda um embætti dómara metur tvo einstaklinga jafn hæfa séu kynjasjónarmið höfð að leiðarljósi í samræmi við jafnréttislög. Aldrei er góð vísa of oft kveðin.

Sú valnefnd sem hér um ræðir er í dag skipuð fleiri konum en körlum, eins og komið hefur fram. Ég vona sannarlega, líkt og aðrir, get ég fullyrt, að það þýði að hugarheimur og reynsla beggja kynja komi til álita við mat á hæfni sem er að mörgu leyti huglægt í eðli sínu. Ég vonast til þess að sá tími þar sem karllæg sjónarmið hafa ráðið för við ráðningar dómara og síðar við úrlausnir dómara sé liðinn undir lok. Ég vona jafnframt einlæglega að við séum nú að stíga skref í átt að jafnari kynjahlutföllum í dómarastéttinni, ekki síst á efri dómstigum.

Ragnhildur Helgadóttir, deildarforseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, sagði, með leyfi forseta:

„Það er mikilvægt fyrir almenning að geta speglað sig í dómstólum líkt og það er mikilvægt að almenningur geti speglað sig í alþingismönnum sínum. Í því ljósi er mikilvægt að bæði kynin eigi sem jafnastan sess hjá dómurum því að þjóðfélagið er víst skipað körlum og konum til jafns.“

Í áliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar er eftirfarandi undirstrikað, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn undirstrikar að frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að taka af allan vafa um heimild dómnefndarinnar til að fjalla um umsóknir um embætti dómara við Landsrétt.“

Mér er, líkt og mörgum öðrum þingmönnum, öllum vonandi, annt um að í Landsrétt veljist dómarar með ólíka reynslu og dómarar af báðum kynjum til þess að almenningur geti speglað sig þar, í réttinum. Því er mikilvægt að minnast á að meiri hluta nefndarinnar þótti rétt að í álitinu væru eftirfarandi orð, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að hlutverk dómnefndar er að láta ráðherra í té rökstudda umsögn um umsækjendur um dómaraembætti og taka afstöðu til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur til að hljóta embættið. Hafi dómnefnd metið tvo eða fleiri umsækjendur jafn hæfa getur hins vegar reynt á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ákvörðun ráðherra um skipun dómara og leggur meiri hlutinn áherslu á að ráðherra hafi að markmiði í því samhengi að kynjahlutföll verði sem jöfnust í hópi skipaðra dómara.“

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að það þyrfti að taka núverandi fyrirkomulag við skipan dómara til endurskoðunar, m.a. með hliðsjón af kynjasjónarmiðum. Meiri hlutinn lagði hins vegar áherslu á mikilvægi þess að vinna við skipun dómara við Landsrétt geti hafist sem fyrst og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Það er mikilvægt að Landsréttur komist á fót hið fyrsta því að eins og staðan hefur verið undanfarin ár í dómstólum landsins taka mál hreinlega of langan tíma í meðferð og afgreiðslu. Hæstiréttur nær ekki að vinna að úrlausn mála nægilega fljótt. Ég er ekki fráhverf því að ferlið við skipun dómara verði skoðað, en það verður þá að skoða það í heild sinni. Ég tel mikilvægt að málið dagi ekki uppi vegna þess að við þurfum einfaldlega að loka því. Þau sjónarmið hafa þegar heyrst að tími valnefndar er að verða mjög knappur til að loka málinu. Ég ítreka álit meiri hluta nefndarinnar, að það sé samþykkt svo við getum farið að koma málinu í farveg.