146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er rétt, sem þingmaðurinn segir, að tíminn er naumur en út frá framkvæmdarvaldinu séð liggur á að ljúka málinu. Þaðan sem ég stend sýnast mér tvær leiðir til þess. Önnur er sú að samþykkja álit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um að setja áherslur í jafnréttismálum neðanmáls eða í nefndarálit eins og það heitir. Hin leiðin er að samþykkja einfaldlega breytingartillögu okkar í minni hlutanum um að setja nákvæmlega þær sömu áherslur í lagatextann sjálfan.

Nú háttar svo til að hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson er í Viðreisn, flokki sem státar af jöfnu hlutfalli karla og kvenna hér á þingi — fjórir karlar og þrjár konur, flokki sem jafnframt situr í jafnréttismálaráðuneytinu og þótti það vænt um þann málaflokk að honum var lyft upp í nafn ráðuneytisins þegar hæstv. ráðherra Þorsteinn Víglundsson settist þar inn. Mig langar að spyrja hv. þingmann í ljósi alls þessa, í ljósi þess að það breytir engu, upp á tímann sem við höfum til stefnu, að við erum öll sammála um markmiðið, hvað þingmaðurinn sjái því til foráttu að styðja tillögu minni hlutans.