146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið, sérstaklega að hafa svarað hér án útúrsnúninga sem ku víst ekki alltaf vera reyndin. Já, við verðum þá væntanlega að vera áfram ósammála um að einhver grundvallarbreyting felist í því að tiltaka í lagatexta um dómstóla að jafnréttislög nái yfir þau lög líka. Mér finnst það sjálfsagt mál og því miður nauðsynlegt en lít ekki á það sem grundvallarbreytingu heldur einfalda áréttingu. Ég þakka þingmanninum líka fyrir að hafa svarað þeirri spurningu sem hún sá fyrir að ég kæmi með hér í öðru andsvari mínu, en þá datt mér í hug önnur, fyrst þingmaðurinn er svona spámannlega vaxin að geta séð fram í tímann. Spurningin er þessi: Segjum sem svo að ráðherra nýti sér ekki það svigrúm sem hún hefur í lögum til að hreyfa við tillögum hæfnisnefndar, segjum sem svo að hæfnisnefnd og ráðherra vinni saman að því að koma til okkar 15 nöfnum sem fari fjarri því að uppfylla kröfur jafnréttislaga, mun hv. þingmaður slást í lið með mér og fleirum og vinna að því að laga það þannig að hér verði millidómstig, sama hvað kann að klikka á leiðinni frá ráðuneytinu til okkar, sem uppfylli lágmarkskröfur jafnréttislaga, að þingið tryggi það og taki í handbremsuna ef þörf krefur?