146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[12:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. frummælanda fyrir að setja þetta mál á dagskrá af því að það skiptir miklu máli að við eflum samfélagsþátttöku ungs fólks, styrkjum æskulýðsstarf, gerum ungu fólki kleift að taka þátt í fjölbreyttu félagsstarfi á eigin forsendum um allt land.

Það er kannski klassískt að benda á að hér stöndum við gamla fólkið að tala um ungt fólk enn einu sinni, nokkuð sem við þurfum kannski að fara að takast á við á þingi. Við erum búin að læra það í svo mörgum málaflokkum að vera ekki að ræða fólk án þess að eiga í reglulegu og raunverulegu samtali við þá aðila sem um ræðir. Hér erum við nokkur sem erum talsmenn barna og erum þannig í tengslum við ungmennaráð UNICEF, ráðgjafaráð umboðsmanns barna og Barnaheilla. Það er þráður sem er mikilvægur en einhvern veginn þarf að víkka þetta út og það höfum við á sveitarstjórnarstiginu, þar höfum við ungmennaráð sem koma til fundar við sveitarstjórn. Það er spurning hvort ráðherrann eða þingmaðurinn hafi einhverjar hugleiðingar um það.

Svo langar mig sérstaklega að beina því til hæstv. ráðherra, af því að ég hef heyrt af því að ein af undirstofnunum ráðuneytisins, Menntamálastofnun, hafi tekið til þess að vera með ungmennaráð þar sem hún speglar hugmyndir á notendum menntakerfisins, hvort ekki væri athugandi að ráðuneytið gerði slíkt hið sama af því að það er mjög mikið í ráðuneytinu sem væri eðlilegt að ræða við ungt fólk beint.

Þar vil ég t.d. nefna í þessu samhengi að það sem ég hef heyrt frá því unga fólki sem ég hef talað við undanfarið er að það sé gríðarlegur misbrestur á því að lýðræðisfræðslu innan menntakerfisins, leikskóla og grunnskóla sérstaklega, sé fylgt í samræmi við aðalnámskrá. Þar þarf heldur betur að bretta upp ermar af því að þetta er alveg gríðarlega mikilvæg námsgrein.