146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[12:48]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Viktori Orra Valgarðssyni, fyrir umræðuna og hæstv. menntamálaráðherra fyrir svör og samtöl. Ég tel að ef við viljum efla virkni þátttöku fólks í samfélaginu sé nauðsynlegt að byrja snemma að virða raddir unga fólksins og bæta tækifæri til virkni. Enginn efi er um að æskulýðsstarf gegnir þar lykilhlutverki, með forvörn og einnig í að efla ungmenni svo að þeim sé kleift að taka vel upplýstar og ábyrgar ákvarðanir.

Ég vil minna menn á orð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar: „Íþrótta- og æskulýðsstarfi þarf að sinna af alúð, enda er framlag þess til lýðheilsu, forvarna og almennrar velsældar landsmanna dýrmætt.“

Ég vil ræða aðeins nokkur atriði í tengslum við að efla kjörsókn ungs fólks. Hið frábæra verkefni #égkýs var mjög áberandi núna við kosningar til Alþingis í haust. Hluti af verkefninu var skuggakosning. Upplifun mín af pallborðsumræðum með ungmennum var óumdeilt bæði skemmtileg og hressandi, jafnvel eitt erfiðasta pallborð sem ég tók þátt í.

Það er skoðun mín að við eigum að fjárfesta í fleiri slíkum verkefnum. Ungmenni hafa svo mikið fram að færa, miklu meiri þekkingu en fólk gerir ráð fyrir hvað varðar málefni í samfélagi okkar en því miður eru þeim ekki gefin nægilega mikil tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós. Þess vegna finnst mér hið besta mál að við skulum íhuga að gefa ungmennum sem hafa náð 16 ára aldri kost á að taka þátt í næstu kosningum til sveitarstjórna sumarið 2018. Það myndi undirstrika ábyrgð okkar að virða skoðanir og raddir ungs fólks.

Önnur hugmynd sem ég velti fyrir mér er hvort við getum ekki skoðað það að hafa færanlega kjörstaði. Hugsum þetta sem sambland af bókabíl og utankjörstaðakosningastöðum á hjólum, sem sagt „koma kjörstöðum til fólksins“. Með því að færa kjörstaði nær ungu fólki gefur það ekki eingöngu tækifæri til að kjósa heldur er það hvatning til þátttöku.