146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[12:50]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Ég ætla þó ekki að ræða mikilvægt hlutverk Æskulýðssjóðs en finnst ástæða til að draga fram með hvaða hætti við þingmenn getum með störfum okkar haft áhrif til góðs eða ills á samfélagsþátttöku ungra barna og unglinga og styrkt og veikt stöðu þeirra. Ég nefni t.d. frumvarp um lækkun kosningaaldurs í kosningum til sveitarstjórna í 16 ár. Sem betur fer er ungt fólk í dag vel að sér og upplýstara en við sem eldri erum, það er einu sinni gangur sögunnar, mannkyninu fer fram þrátt fyrir allt. Ég er sannfærður um að þetta frumvarp er fyrirtaksleið til þess að efla samfélagsáhuga ungs fólks en jafnframt mikilvægt til þess að viðurkenna með áþreifanlegum hætti þá ábyrgð sem við teljum að ungt fólk standi undir.

Síðan eru aftur á móti tvö frumvörp fyrir þinginu núna sem ég tel að hafi þveröfug áhrif og veiki stöðu ungs fólks. Í fyrsta lagi áfengisfrumvarpið. Það hefur náðst gríðarlegur árangur gegn unglingadrykkju þannig að tekið hefur verið eftir því um allan heim. Við erum flest sammála um að með þessu frumvarpi muni aðgengi að áfengi aukast, unglingadrykkja mun hugsanlega aukast töluvert líka. Ég tel að samþykkt þessa frumvarps yrði fórn í þágu viðskipta- og verslunarfrelsis sem veikti stöðu ungs fólks.

Í öðru lagi langar mig að nefna frumvarp um afnám lágmarksútsvars sveitarfélaga. Hér erum við að búa til umhverfi sem gerir einstaka sveitarfélagi kleift haga sér eins og skattaparadís. Það verður freistandi að undirbjóða önnur sveitarfélög í útsvarsprósentu og láta sér nægja það metnaðarlitla hlutverk að standa bara undir lögbundinni þjónustu. Fyrstu hlutirnir sem fengju að fjúka yrðu væntanlega stuðningur við menningu, íþróttir, æskulýðsstarf og aðra þá hluti sem skipta ungt fólk miklu máli. Ég tel því að samþykkt þessara tveggja síðastnefndu frumvarpa yrði slæm gjöf til ungs fólks í landinu.