146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[12:55]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu umræðu um æskulýðsmál og lýðræðisvakningu. Það er skemmtilegt að heyra frá ráðherranum um þennan málaflokk en allt of sjaldan hafa leiðir í æskulýðsmálum og leiðir til að auka lýðræðisvakningu ungs fólk verið rökræddar almennilega. Samfélagsleg þátttaka ungs fólks er nefnilega gríðarlega mikilvæg. Það er nauðsynlegt að efla lýðræðisvitundina og þar spilar m.a. menntakerfið stórt hlutverk. Við þurfum með kennslu, fræðslu, umræðum og námsmati að efla lýðræðisvitund ungs fólks innan menntakerfisins. Ungt fólk hefur nefnilega áhuga á samfélagi sínu. Það þarf að ýta undir þennan áhuga í stað þess að kæfa hann niður. Við þurfum að virkja það til þátttöku í samfélaginu þar sem mikilvægt er að einstaklingar á öllum aldri taki þátt og að fjölbreyttar raddir heyrist þegar teknar eru ákvarðanir um það sem skiptir máli, sérstaklega fyrir framtíðina. Þar hefur ungt fólk margt til málanna að leggja.

Verkefnið #égkýs sem ég var svo heppin að fá að taka þátt í fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, m.a. í aðdraganda alþingiskosninganna, var vel heppnað, eins konar skuggakosningar í framhaldsskólunum, framkvæmt og kynnt í framhaldsskólum landsins og einnig í efri bekkjum grunnskólanna. Verkefnið stuðlaði ekki aðeins að einföldum og greinargóðum upplýsingum til unga fólksins um kosningarnar, um flokkana í framboði og stefnumál, heldur voru einnig rökræður milli frambjóðenda í skólum þar sem nemendur fengu tækifæri til að spyrja frambjóðendur spurninga um þau mál sem brunnu á þeim. Fundirnir voru afskaplega vel sóttir af ungmennum í öllum skólum. Þau voru áhugasöm og vel að sér, spurðu fjölbreyttra spurninga og víða höfðu þau undirbúið sig í tímum með kennurum sínum. Það er vel. Þarna lærðu þau mikið. Þarna spilar menntakerfið stórt hlutverk til að virkja áhuga. Ég er viss um að verkefni líkt og þetta hvetji ungmenni til að mæta á kjörstað og láta málin sig varða. En það má ekki bara hafa áhuga á að virkja samfélagsþátttöku þeirra rétt í kringum kosningar. Þetta er nokkuð sem þarf að vera í gangi á hverju einasta ári.

Frú forseti. Á Íslandi starfa fjöldamörg ungmennafélög sem sinna félagsstarfi fyrir ungt fólk. Vissulega mætti gefa þeim meira vægi innan stjórnsýslunnar, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Ungt fólk er ekki skraut (Forseti hringir.) og það á ekki að koma fram við það sem skraut. Það er mikilvægt að aðilar gefi rödd unga fólksins meiri gaum innan stjórnsýslunnar. Þar má gera betur.