146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[13:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Viktori Orra Valgarðssyni, mjög fína umræðu og gott málefni og jafnframt hæstv. ráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni. Ég ætla að byrja á því að segja að ungmennafélögin, íþróttafélögin, æskulýðsstarfsemi, ýmiss konar tómstundir — ég held að við finnum óvíða jafn öfluga starfsemi og hér á Íslandi og vettvang sem er ekki einungis sterkasta vopnið í forvörnum, sem ég held að stjórnvöld eigi að nýta miklu frekar með miklu meiri stuðningi við það sjálfboðaliðastarf sem sú starfsemi hvílir á, heldur mjög öflugt kennslutæki í félagsfærni, í að efla samfélagsvitund og þátttöku í samfélaginu af margvíslegum toga.

Varðandi minnkandi kjörsókn ungs fólks eru ýmsar kenningar uppi um það hvað hafi áhrif á kosningaþátttöku. Vandinn er, og það hefur komið fram hjá hv. málshefjanda m.a., að það eru takmörkuð gögn, aldursgreinanleg gögn úr kosningum almennt eru ekki tiltæk. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort að hann ætli að beita sér fyrir úrbótum á þessu sviði.

Efnahagsgerð hefur áhrif. Það er svolítið sérstakt að aukið frelsi og minni afskipti ríkisvalds virðast draga úr kosningaþátttöku almennt. Hefur það áhrif á ungt fólk? Það eru vísbendingar um að svo sé hérlendis eins og víða erlendis.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég koma inn á að ýmislegt hefur verið mjög vel gert. Við getum nefnt Skólaþing hér á okkar vinnustað, frábær hugmynd. Lífsleikni í grunn- og framhaldsskólum er mjög gott framtak og svo skuggakosningar sem hæstv. ráðherra kom inn á.