146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[13:04]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Viktori Orra Valgarðssyni fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir þátttökuna með okkur. Það er ekki sjálfgefið að foreldrum lánist að koma efnilegu æskufólki til manns. Í uppvexti eru ýmsir farartálmar og aðstæður uppalenda æðimisjafnar. Í samfélagi fjölbreytileikans, stöðugra tækninýjunga og örra breytinga, hraða og streitu verða börn og ungmenni fyrir áreiti og áhrifum sem við sem teljumst fullorðin þekktum ekki. Uppalendur nú reiða sig í ríkum mæli á félagsleg úrræði í daglegu lífi, nánast frá því að ungviði fæðist. Leitað er eftir þjónustu dagmæðra, leikskóla, grunnskóla með daglegu frístundavali að honum loknum sem dæmi. Það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn, sögðu Afríkubúar, og allt miðast þetta við að foreldrar geti stundað vinnu og dregið björg í bú. Og við treystum á þorpið.

Við eigum frábærar samfélagsstoðir. Sveitarfélög hafa lagt sig í líma við margvíslegt æskulýðs- og ungmennastarf og í dag eru þessi atriði talin vera veigamiklir grunnþættir sem miklu ráða um búsetuval. Ekki er hægt að horfa fram hjá gríðarlega öflugu og hollu starfi íþróttafélaganna, íþróttahreyfingarinnar. Á þeim vettvangi lærist þúsundum barna og ungmenna að fóta sig í tilverunni, finna kjölfestu, ramma inn tíma sinn, vinna að markmiðum, ná árangri, kljást við vonbrigði og þroskast til að taka jafnt sigri sem ósigri. Þarna er unnið uppbyggingarstarf jafnt með ungum börnum og einstaklingum fram á efri ár, starf sem sennilega er enn vanmetið.

En ekkert er einhlítt og íþróttastarf heillar ekki öll börn og unglinga og gera verður ráð fyrir fjölbreytileikanum, þúsund blóm eiga að geta blómstrað. Uppbyggilegt starf er unnið miklu víðar. Stefna stjórnvalda þarf að vera skýr og afdráttarlaus. Formlega vantar hana enn og það verður fróðlegt að heyra nánar í ráðherra um það.

Við þykjumst stundum hafa áhyggjur af samfélagsvitund ungmenna, það er ástæða til að halda vöku sinni. Fyrir síðustu alþingiskosningar fannst mér aldeilis frábært (Forseti hringir.) að upplifa samveru og lífleg samtöl með ungu fólki í svokölluðum skuggakosningum í framhaldsskólunum sem skipulagðar voru af nemendum sjálfum. Gott framtak sem vekur manni trú á framtíðarfólkið.