146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[13:06]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og öðrum hér fyrir umræðurnar. Eins og ráðherra tók kannski eftir náði ég ekki að koma inn á allt sem mig langaði að tala um og ætla því að bæta aðeins við.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í mars árið 2013 var þeim ábendingum beint til ráðuneytisins að það gerði, með leyfi forseta, „samninga við helstu æskulýðssamtök landsins þannig að skýrari umgjörð verði um framlög ríkisins til þeirra“ og bent á að smærri æskulýðssamtök ættu í miklum erfiðleikum. Ég hef þegar sent skriflega fyrirspurn til ráðuneytisins en ég vil sérstaklega hvetja ráðherra til að ganga til viðræðna við heildarsamtök æskulýðssamtaka og sérstaklega þau sem starfa með ungu fólki, eins og hér hefur áður verið rætt, til að tryggja þeim fullnægjandi fjármögnun og mun meiri fyrirsjáanleika í rekstri en hingað til.

Eins og hv. þm. Lilja Dögg Alfreðsdóttir kom inn á hefur ekki verið mikið að frétta af æskulýðsstefnu ríkisins. Drög að henni voru kynnt í nóvember 2012 og ég hef lítið heyrt af henni síðan. Æskulýðsráð ber ábyrgð á henni og mjög mikilvægt er að íslensk stjórnvöld samþykki æskulýðsstefnu. Því langar mig að spyrja ráðherra hvort hann hafi fundað með æskulýðsráði um þessi mál og hvort von sé á því að sjá meira til íslenskrar æskulýðsstefnu í ráðherratíð hans.

Eins og ráðherra kom inn á veitir Æskulýðssjóður bara styrki til verkefna en ég hvet hann til að breyta því þannig að þeir geti farið til rekstrar. Ég vil líka vekja athygli á því að annar helsti styrktaraðili landsins í þessum málaflokki, æskulýðshluti Erasmus+ áætlunar er undir umsjá eins tiltekins æskulýðsfélags, þ.e. UMFÍ. Skrifstofa sjóðsins er rekin af einu æskulýðsfélagi landsins þrátt fyrir að styrkirnir séu ætlaðir til æskulýðsfélaga á Íslandi almennt. Síðan keppir þetta félag við önnur æskulýðssamtök um styrki úr sjóðnum. Finnst ráðherra þetta eðlilegt fyrirkomulag eða ætti æskulýðshlutinn að falla undir Rannís eins og menntahlutinn?

Varðandi spurningar hv. þm. Jónu Sólveigar Elínardóttur er stutta svarið: Já, það er ein skýrasta niðurstaða rannsókna að það hvort maður kýs í fyrstu kosningum er ein sterkasta spáin um hvort maður muni kjósa síðar á lífsleiðinni.

Það að færa kjörstaði nær fólki finnst mér ágætishugmynd og ég hef fyrst og fremst pælt í því að færa kjörstaðina einfaldlega á gamla, góða internetið. (Forseti hringir.)

Jú, það er rétt að við getum ekki keypt traust ungmenna en það er engu að síður mjög alvarlegt vandamál að félagsstarf ungmenna á Íslandi er mjög fjársvelt, sérstaklega í samanburði við önnur Norðurlönd þar sem kjörsókn ungs fólks virðist t.d. ekki fara jafn hnignandi og hér.