146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[13:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún hefur verið málefnaleg og góð og upplýsandi á margan hátt. Komið hafa fram margvísleg sjónarmið í þessu efni og margar spurningar hafa komið upp í umræðunni sem er kannski ekki gerlegt að svara hér á tveimur mínútum. Ég lýsi mig reiðubúinn til að efna sem oftast til umræðu um þetta mikilvæga mál.

Ef ég reyni að draga umræðuna saman þá snýst hún fyrst og fremst í mínum huga um að auka aðgengi ungmenna að stjórnvöldum á hverjum tíma og starfi þeirra í þeim málaflokkum sem efst eru á baugi hjá ungmennum hverju sinni. Það er meginlínan. Í meginatriðum getum við í þessum sal reynt að hafa skoðanir á því hvað ungmennum finnst, sama hvort það er á sviði áfengismála eða útsvars eða guð má vita hvað fólki dettur í hug. Grundvallaratriðið er hvernig við virkjum ungt fólk til þátttöku í gangverki samfélagsins. Við verðum að passa okkur á því að gera það ekki endilega á forsendum stjórnmálaflokkanna þó að við ræðum um þátttöku unga fólksins í kosningum.

Ég tel að þátttaka ungs fólks í kosningum ráðist ekki eingöngu af því hversu vel stjórnmálaöflunum í landinu gengur að draga þau liðsinnis við sig. Ég held að kosningaþátttaka ungs fólks og raunar allra þegna þjóðfélagsins ráðist af því hversu mikinn áhuga á þjóðfélagsmálum almennt tilteknir hópar eða samfélagið allt hefur. Þar liggur meginvandinn í mínum huga, þ.e. hvaða leiðir við teljum færastar og bestar til þess að virkja ungt fólk til þátttöku í gangverki samfélagsins og gefa því öll þau tækifæri þar til að eiga samræður við alla þjóðfélagshópa á fyrstu stigum úrvinnslu mála. Ég held að þar liggi höfuðvandinn og ég held að við getum öll náð saman um að það sé okkar sameiginlega markmið.