146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:01]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hann spyr hér hvort jafnréttislögin nægi, hvort þau nægi til að tryggja (Gripið fram í.) — og styrking á reglu valnefndar. Ég er þannig þenkjandi að ég tek undir álit minni hlutans og hnykki á þeirri afstöðu að það þurfi að vera bundið í lög. Þó að jafnréttislög séu lög í landinu, þá ber svo við því miður að allt of margir telja að þau séu ekki nógu góð, séu ekki eins og önnur lög, að þeim beri ekki að fylgja jafn ítarlega og öðrum lögum.

Í andsvörum í 1. umr., þegar hún var spurð um það hvort jafnréttislögin gildi, segir dómsmálaráðherra að hún hallist að því að lög sem almennt gilda í landinu gildi um öll svið samfélagsins. Ég hefði viljað að hún hefði kveðið fastar að orði og sagt: (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu gilda hér jafnréttislögin og við munum virða þau að öllu leyti.