146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:08]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að hv. þm. Brynjar Níelsson hafi vit fyrir Sameinuðu þjóðunum og að hann viti betur en Sameinuðu þjóðirnar. (Gripið fram í.) Það er alltaf ágætt þegar menn telja sig vita betur.

Varðandi þessa vitleysu, sem hv. þingmaður var að vitna í, sem eru tilmæli Sameinuðu þjóðanna og nefndar á vegum þeirra, um afnám allrar mismununar gagnvart konum, þá var það á síðasta ári, það var 2016 en ekki 2013, þannig að við skulum líka hafa allar staðreyndir á hreinu.

Varðandi málflutning hans hér og röksemdafærslu, um að ekki sé hægt að taka lög og setja þau inn í önnur lög, þá er það nú einu sinni svo að hann greiddi atkvæði með því þegar jafnréttislög voru sett inn í dómaralög. Hann greiddi atkvæði með því. Það er fordæmi fyrir því hér í lögunum og það er fordæmi fyrir því að hv. þingmaður sé með því. Hví skyldi hann þá ekki vera (Forseti hringir.) með því núna að þetta sé sett í lög þegar verið er að koma á nýju dómstigi?