146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:00]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy og harma það ef hann upplifir það að hann hafi lent hér í einhverri pissukeppni. Þetta var nú bara sagt af kærleiksríkri umhyggju þegar ég benti á stuðning minn við ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar og áherslu þeirrar ríkisstjórnar á jafnréttismálin. Ég held að við getum, og ég trúi því innilega að við munum sameinast um að halda á lofti þeim kynjasjónarmiðum sem nauðsynleg eru til að betrumbæta samfélag okkar.

En spurning mín varðandi orð dómsmálaráðherrans og hvernig þau samræmast yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og hvort tilefni sé til að hnykkja enn betur á þeim texta sem fram kemur í minnihlutaálitinu — ég er sammála hv. þingmanni um að sú setning sem hér um ræðir er ekki mjög róttæk og ekki til þess fallin að menn þurfi að klofna í fylkingar gagnvart henni eða að mikill ágreiningur þurfi að rísa um hana, heldur eigi það einmitt að vera sjálfsagt að hafa hana í lögunum.

En ég velti því fyrir mér hvort orð og viðhorf hæstv. dómsmálaráðherra samræmist yfirlýsingunni og hvort geta megi sér þess til að hennar afstaða sé tilefni til þess að minni hlutinn hafi viljað hnykkja enn betur á þessari setningu.