146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. [Hlátur í þingsal.] Ég er ekki byrjaður að tala einu sinni. Það er eins og þetta fólk viti hvað ég ætla að segja. [Hlátur í þingsal.]

Það hefur verið mjög athyglisvert að hlusta á umræðuna. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar, og ósammála mörgum sem hafa talað, að alla jafna sé nauðsynlegt að það séu jöfn kynjahlutföll í störfum. Sjálfur tel ég það æskilegt, sérstaklega þar sem eitthvert vald er í höndum fólks eða viðkomandi stétta. Ég tel það mjög æskilegt. En þegar kemur að æðstu dómstólum landsins tel ég mikilvægast að þar ráðist fólk til starfa sem er mjög hæft.

Nú vitum við ekki hvernig umsækjendur verða og hvað verða margir af hvoru kyni og hvers konar fólk sækir um. Ef það eru fleiri konur hæfastar hef ég engar áhyggjur af því. Ég hef engar áhyggjur þótt það verði 15 konur í dómnum. Engar. En aðalatriðið í þessu, vegna þess að þetta er mjög vandasamt starf, því fylgja mikil völd sem hafa gífurleg áhrif á líf og aðstöðu okkar þegnanna, er að við getum ekki látið einhver sjónarmið um kynjakvóta eða hvað sem er ráða úrslitum. Æskilegt er að hann sé fjölbreyttur, ekki bara hvað varðar kynin heldur einnig bakgrunn hvers og eins, af hvaða sviði lögfræðinnar menn koma o.s.frv. Þetta er það mikilvægasta.

Varðandi umræðuna hér um þessa breytingartillögu þá finnst mér hún afskaplega undarleg vegna þess að lögin eru alveg skýr: Ráðherra er bundinn af mati nefndarinnar um þann hæfasta. Ef einhverjir eru jafnir þá taka við, eins og alltaf hefur verið og ráðherra kemst ekki upp með annað, lögin um jafna stöðu kynjanna. Þetta er svo einfalt.

Þess vegna finnst mér skrýtið að við séum búin að eyða heilum degi í þetta. Þetta er tóm þvæla, eins og sagt er. Lögin eru alveg skýr, hvað menn geta gert, hvað lögin segja og hvað menn geta gert samkvæmt þeim.

Ég veit að sumir hér halda að ég hati konur og hafi gert alla tíð en það er mikill misskilningur. Ég er sennilega eini maðurinn í þingsalnum sem hefur einhverja hagsmuni af því að konur fái þessar dómarastöður. Það vill svo einkennilega til … (Gripið fram í.) — Og Logi, kannski. En menn mega ekki misskilja mig hvað þetta varðar. Ég legg sjálfur mikla áherslu á að fjölbreytileikinn sé sem mestur þar sem valdið er. Ég tel það sama eiga við þegar kemur að Alþingi, að hér þurfi að vera sem fjölbreyttastur hópur, og það skiptir líka máli að menn séu alls staðar að af landinu, að uppi séu sjónarmið kynjanna, þótt þau séu ekki alltaf eins innan hvers kyns. Það er æskilegt.

En stundum geta aðstæður verið aðrar. Þá hallar á annað hvort kynið. Heimurinn ferst ekki við það, hvorki í hjúkrunarstétt, kennarastétt, dómarastétt, á Alþingi né annars staðar. Jafnrétti snýst ekki um að jafnt hlutfall sé af kynjum í öllum stöðum. Við þurfum að koma okkur úr þeirri umræðu svo að umræðan um þetta mál geti orðið svolítið vitræn, því að dómstólarnir eru gífurlega mikilvægir. Það er mjög mikilvægt að þar sé mjög hæft fólk. Við erum ekki að tala um neitt miðlungsfólk í það. Það eru ekki allir lögfræðingar sem útskrifast hæfir til þessara starfa og þótt sumir gætu talist hæfir getur verið mjög mikill munur á mönnum. Það er ekki öllum gefið að leysa úr flóknum lögfræðilegum úrlausnarefnum. Það er ekki þannig.

Allt kvótatal í þessu og eitthvað svoleiðis gengur ekki upp. Við verðum að tryggja það fyrst og fremst að hér sé fólk sem er mjög hæft. Og það er auðvitað enginn almennilega hæfur nema hann hafi þokkalega reynslu. Það er kannski skýringin á því af hverju enn þá er munur í Hæstarétti en ekki annars staðar í dómskerfinu. Það breytist auðvitað þegar hlutföllin jafnast milli þeirra sem hafa reynslu og eru útskrifaðir með þetta próf.

Ég er að reyna að draga saman það sem skiptir máli og það sem málið snýst um svo að umræðan fari ekki út um víðan völl, eins og hjá hv. þingmanni Smára McCarthy sem lítur á þetta sem jafnréttismál frekar en að það sé hæfnin sem skipti máli. Ef við ætlum að víkja frá því þá lendum við fyrst í vandamálum með dómstólana. Ég tala ekki um ef menn ætla að gera fleiri atriði en kynjamuninn, einhver önnur atriði, að forgangsmálum, burt séð frá öllu sem telst hæfni, þá lendum við í algerum ógöngum með þessi mál.

Ég ætla að ítreka í lokin og leiðrétta það, eins og ég er kannski búinn að gera margoft, að þessi meinti kynjahalli er ekki í dómskerfinu almennt. Hann er enginn orðinn nema að mjög afmörkuðu leyti. Ég hef enga trú á því að það verði einhver halli í raun í hinum nýja Landsrétti. Við eigum orðið mjög reynda kvenkyns dómara. Við eigum mjög reynda kvenkyns lögmenn. Lengi vel voru nánast engar konur í lögmannastéttinni. Þær voru mjög fáar lengi vel, þær fóru aðrar leiðir en í lögmannsstörfin. En það hefur sem betur fer breyst. Sviðið er gerbreytt. Ég fullyrði það að ef allar þær konur sem eru reynslumiklar sækja um og hafa hæfni og getu í þetta starf verður enginn áberandi kynjahalli í þessu máli.

Ég tel þó mjög skynsamlegt að taka þessa umræðu, þannig að menn átti sig á því um hvað málið er almennt og fókuseri svolítið á prinsippin í því, sem er mikilvægt. Ég ætla ekki að kvarta yfir því þótt menn séu mér ósammála. Ég ætla heldur ekki að tala niður til eins né neins. Ég vil líka nota tækifærið og biðja hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé afsökunar á því að ég skyldi ýja að því að hann talaði hér meira en góðu hófi gegndi.