146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:21]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nú að játa það að þetta svar hv. þingmanns olli mér töluverðum vonbrigðum. Ég hefði satt að segja haldið að hv. þm. Brynjar Níelsson gæti gert betur en að lýsa yfir í ræðustól Alþingis hroka sínum gagnvart mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og segja að hann viti betur og hann taki ekki mark á því. Hér talar fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands, hæstaréttarlögmaður, héraðsdómslögmaður og þingmaður. Þetta er með engu móti boðlegt. Hér kemur hv. þingmaður trekk í trekk upp í ræðustól Alþingis og endurtekur orðin rugl og þvæla. Það eru hans viðbrögð við því að virða hér tilmæli Sameinuðu þjóðanna um hvernig afnema skuli kynjamisrétti sem er rótgróið inn í dómskerfi Íslands.

Ég vil líka minna hv. þingmann á þegar hann talar hér um að það sé (Forseti hringir.) VG sem veiti Sameinuðu þjóðunum upplýsingar, að það eru m.a. íslensk stjórnvöld sem veita Sameinuðu þjóðunum upplýsingar um stöðu mála hér (Forseti hringir.) á landi.