146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Nú er ég ekki lögfræðingur, frú forseti, en í þessu frumvarpi sem við erum að fjalla um er þetta opið. Þessi hjáleið ráðherra hingað inn til þings með hæfa umsækjendur er galopin, það er bara eftir orðanna hljóðan. Sú tillaga sem minni hlutinn leggur fram er orðrétt, sömu setningar og birtast í tveimur greinum dómstólalaganna, laganna sem frumvarpið snýr að, 9. og 11. gr. sem snúa annars vegar að nefnd um dómarastörf og hins vegar um þessa valnefnd sem mun taka við að lokinni þessari fyrstu gusu, þar sem lög um dómstóla fjalla um það hvernig eigi að skipa hóp fólks, notar sömu setningu og við í minni hlutanum leggjum til að nota við að skipa þann hóp fólks sem ráðherra á að koma með hingað til þings. Hvað er það sem þingmaðurinn er hræddur við? Er þetta kannski ástæðan fyrir því að hv. þingmaður, í stjórnarandstöðu við sinn eigin flokk hérna á síðasta kjörtímabili, sagði í ræðustól Alþingis, með leyfi forseta:

„… að ég mundi vilja hafa margt öðruvísi en er í þessu frumvarpi. Ég styð samt þetta frumvarp … “

Hann studdi ekki ákvæði, hv. þingmaðurinn, um kynjakvóta þegar frumvarpið (Forseti hringir.) var hér upphaflega til (Forseti hringir.) umfjöllunar, en fékk loksins útrás af því að við í (Forseti hringir.) minni hlutanum komum með (Forseti hringir.) samhljóða (Forseti hringir.) breytingartillögu. Nú loksins (Forseti hringir.) fær hann útrásina sem hann fékk ekki hérna veturinn 2016.