146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:31]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að reynsla skiptir ekki öllu máli. Ég tel að vísu að ákveðin mikil reynsla þurfi að vera fyrir hendi svo að þú takir svona mikilvægt starf að þér eins og dómarastarf í Hæstarétti er. En stundum geta menn sýnt alveg óheyrilega hæfni á unga aldri, kannski ekki reynslumiklir. Ég hef séð það í mati þessarar nefndar að menn hafa tekið tillit til þess. Þegar um er að ræða tvo aðila með 40 ára reynslu og 50 ára reynslu skiptir þetta auðvitað engu máli, en það getur skipt máli hvort fólk hefur 5 ára reynslu eða 15 ára reynslu. Ég er alveg sammála því, við skulum ekki alveg einblína á það. Sumir sýna það í verkum sínum að þeir geta leyst úr mjög flóknum lögfræðilegum úrlausnarefnum meðan aðrir sýna að þeir eiga erfitt með það, eða beinlínis geta það ekki. Engu að síður eru þeir útskrifaðir lögfræðingar. Þetta er auðvitað kjarni málsins. Ég er alveg sammála því að það þarf að horfa til margra hluta í þessu mati.